Innlent

Tryggvi þáði fjóra pelsa og er slétt sama um gagnrýnina

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Sonul Badiani Hamment  frá PETA og Tryggvi Hansen sem fékk fjóra pelsa í gær.
Sonul Badiani Hamment frá PETA og Tryggvi Hansen sem fékk fjóra pelsa í gær. Fréttablaðið/Vilhelm
„Við erum hér til að hjálpa heimilislausum á Íslandi. Við myndum aldrei vilja skaða þá,“ segir Sonul Badiani Hamment, sem kom með tvö hundruð pelsa frá dýraverndunarsamtökunum PETA til að gefa heimilislausu fólki.

Fjölskylduhjálp Íslands deilir út pelsunum sem eru merktir með litum.

Er fréttir af þessu bárust í gær gagnrýndu margir þessa tilhögun.

„Þetta er fyrst og fremst niðurlægjandi fyrir þann sem ætlar að gefa þetta. Að ætla að merkja fólk sem er fátækt,“ sagði Vilborg Oddsdóttir, félagsráðgjafi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, við Vísi.

„Mér finnst nú bara núna að þeir sem eru að stýra eins og velferðarkerfinu og slíku eigi að bara að taka sig til og segja stopp og hingað og ekki lengra. Við getum ekki verið að merkja og í rauninni að brennimerkja fólk sem er fátækt á þennan hátt,“ sagði Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila, í samtali við RÚV.

Ég er ekkert stressaður yfir því að teljast vera fátækur,“ Tryggvi Hansen.
Hefja á útdeilingu pelsanna í dag. Tryggvi Hansen, sem býr í skóglendi í útjaðri borgarinnar, fékk þó að velja sér pels strax í gær og gekk út með fjögur stykki. Hann setur ekki fyrir sig að pelsarnir séu merktir.

„Mér finnst þetta allt í lagi persónulega. Þeir sem fíla þetta ekki sleppa því bara að taka pelsana,“ segir Tryggvi. Hann hafi ekkert á móti því að auglýsa dýraverndunarsjónarmið.

„Og ég er ekkert stressaður yfir því að teljast vera fátækur, ríkidæmi er bara hreint djók.“

Sonul Badiani Hamment segir einu ástæðuna fyrir því að merkja pelsana eindregna afstöðu PETA gegn grimmd í pelsaiðnaðinum.

„Við merkjum þá til að tryggja að ekki sé hægt að græða á þeim en að þau dýr sem hafa dáið fyrir þessa pelsa geti komið að góðum notum fyrir fólk sem þjáist í kuldanum á Íslandi,“ segir Sonul.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, starfandi formaður hjá Fjölskylduhjálpinni, segist undrast gagnrýni sem fram hafi komið og nefnir sérstaklega ákall Guðrúnar Ögmundsdóttur um að þeir sem stýri velferðarkerfinu „segi stopp“ vegna málsins.

Tryggvi Hansen með Gunnari Árnasyni félaga sínum.Fréttablaðið/Vilhelm
„Mér finnst eins og Guðrún sé að hóta okkur,“ segir Ásgerður. Fjölskylduhjálpin sé langstærstu hjálpar­samtökin í matargjöfum á Íslandi. Þau séu rekin án yfirbyggingar. „Það virðist fara afskaplega í taugarnar hjá ráðafólki hjá borginni. Það er skrítið hvað vinstri vængurinn hefur á móti okkur. Alltaf ef hægt er að gagnrýna okkur þá er það gert.“

Sonul Badiani Hamment segir mjög auðvelt að sjá neikvæðar hliðar á hlutum.

„Þetta hefur ekkert að gera með það að draga fólk í dilka eða slíkt. Við óskum þess eins að fólk geti séð það góða í öðrum og það góða sem við erum að reyna að gera.“

Gunnar Árnason gerði Tryggva félaga sínum viðvart um pelsana og ók honum í Fjölskylduhjálpina.

„Hann Tryggvi er ekkert eini maðurinn á Íslandi sem býr ekki í húsi. Ef þetta fólk má ekki hlýja sér á þessum minkum þá á ég ekki til orð lengur,“ segir Gunnar.

Auk pelsanna sem Tryggvi fékk var fimm pelsum ráðstafað strax í gær, þar af fóru þrír til félagsins Villikatta sem hyggst nota þá í búr fyrir dýrin. 


Tengdar fréttir

Afkomandi huldufólks býr í skógarrjóðri við Reykjavík

Náttúruunnandinn Tryggvi Gunnar Hansen hefur frá því í maí hafst við í tjaldbúð í skóglendi í jaðri Reykjavíkur. Tryggvi segir sig afkomanda og merkisbera fólks sem hafi verið hér fyrir "svikalandnám víkinga“ og vill að Íslendingar snúi í torfkofana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×