Erlent

Trump heldur öllum möguleikum opnum

Atli Ísleifsson skrifar
Donald Trump segir Norður-Kóreumenn sýna nágrönnum sínum fyrirlitningu.
Donald Trump segir Norður-Kóreumenn sýna nágrönnum sínum fyrirlitningu. Vísir/AFP
Stjórnvöld í Norður-Kóreu hefur sakað Bandaríkin um að bera ábyrgð á eldfimu ástandi á Kóreuskaga og að Norður-Kóreumenn séu í fullum rétti að bregðast við. Donald Trump Bandaríkjaforseti segist í yfirlýsingu halda öllum möguleikum opnum vegna þess ástands sem uppi er á Kóreuskaga.

Norður-Kóreumenn skutu í gærkvöldi eldflaug yfir Japan en flaugin fór í sjóinn í þremur hlutum um 1.180 kílómetra undan ströndum Hokkaido. Japanir gerðu ekki tilraun til að skjóta eldflaugina niður en íbúum var ráðlagt að gera ráðstafanir í hátalarakerfi sem ómaði um Hokkaido.

Trump sagði Norður-Kóreumenn hafa með skotinu sýnt nágrönnum sínum og öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna fyrirlitningu. Ógnanir og tilburðir Norður-Kóreumanna til að draga úr stöðugleika í heimshlutanum munu einungis auka á einangrun þarlendra stjórnvalda í heimshlutanum og meðal annarra ríkja heims.

Han Tae-song, sendiherra Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum, segir Norður-Kóreustjórn vera í fullum rétti og eldflaugaskotið vera viðbrögð við hefæfingum Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í heimshlutanum.

Suður-Kóreumenn brugðust við eldflaugaskotinu með því að varpa átta sprengjum í æfingaskyni. Kínastjórn sagði ástandið á Kóreuskaga nú vera komið á hættulegt stig, en að ábyrgðin lægi að hluta hjá Bandaríkjamönnum og Suður-Kóreumönnum. Talsmaður Rússlandsstjórnar segir Rússa sömuleiðis vera mjög uggandi vegna ástandsins.

GRAPHIC NEWS



Fleiri fréttir

Sjá meira


×