Erlent

Ríkisstjóri New Jersey varði fríinu á strönd sem hann lét loka fyrir almenningi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Chris Christie þvertók fyrir að hafa sleikt sólina í gær vegna þess að hann hafði derhúfu á höfðinu.
Chris Christie þvertók fyrir að hafa sleikt sólina í gær vegna þess að hann hafði derhúfu á höfðinu. Vísir/Getty
Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey í Bandaríkjunum, varði gærdeginum í fríi á ströndinni með fjölskyldu sinni. Ströndin er hluti af ríkisreknum garði, sem ríkisstjórinn fyrirskipaði sjálfur að yrði lokaður almenningi. AP-fréttaveitan greinir frá.

Christie, sem er ríkisstjóri fyrir Repúblikanaflokkinn, er gríðarlega óvinsæll í heimafylki sínu. Hann gisti ásamt fjölskyldu sinni í húsnæði sem ríkisstjórar hafa til afnota í Island Beach State Park um helgina. Á blaðamannafundi í Trenton í gær, þar sem Christie ræddi lokanir sem standa nú yfir á skrifstofum hins opinbera, sagðist hann fljúga fram og til baka í þyrlu vegna þess að hann vill „almennt sofa þar sem fjölskyldan er.“

Christie var spurður á blaðamannafundinum hvort hann hefði látið sólina skína eitthvað á sig yfir daginn. Hann sagði svo ekki vera. Í kjölfar birtinga á myndum af ríkisstjóranum í sólbaði sagði talsmaður hans að Christie hefði vissulega ekki látið sólina skína á sig, hann hefði verið með derhúfu. Myndir af frídegi Christie-fjölskyldunnar á ströndinni má sjá í meðfylgjandi tísti.

Skrifstofur hins opinbera í New Jersey eru nú lokaðar vegna örðugleika í rekstri ríkisstjórnar fylkisins. Öllum ríkisreknum görðum og skrifstofum sem vinna að umferðarmálum var lokað á föstudag. Mikil óánægja ríkir í New Jersey vegna ástandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×