Innlent

Telja vitlaust að lækka leikskólagjöld

Sæunn Gísladóttir skrifar
Tæplega 17 prósent lækkun verður á dvalargjaldi.
Tæplega 17 prósent lækkun verður á dvalargjaldi. vísir/eyþór
Leikskólagjöld í Reykjavík lækkuðu frá og með mánaðamótum. Lækkunin nemur um 150 milljónum króna á ársgrundvelli og mun því verða um 75 milljónir króna á þessu ári. Tæplega 17 prósenta lækkun verður á dvalargjaldi.

Áslaug M. Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.vísir/stefán
Fram kemur í fundargerð borgarráðs að tillagan um lækkunina hafi verið samþykkt með fjórum atkvæðum gegn tveimur. Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallavina greiddu atkvæði gegn lækkun.

„Við teljum að þetta sé ekki til bóta fyrir leikskólana eða þjónustuna. Leikskólastarfsfólk hefur verið að kvarta undan vanbúnaði og lélegum mat og öðru. Við teljum það ekki til hagsbóta fyrir fjölskyldur í borginni,“ segir Áslaug María Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hún telur að það hafi verið krafa Vinstri grænna við meirihlutamyndun að lækka gjöldin.

„Þetta er síðasti punkturinn í að mótmæla þessu, við komumst ekki lengra með það. Við viljum bara benda á: Af hverju að lækka gjöldin og gera nauðsynlegt kerfi fyrir foreldra og Reykvíkinga ennþá meira vanbúið en það er? Af hverju telja vinstriflokkarnir í Reykjavík að það sé nauðsynlegt? 

Nú eru laun að hækka og samfélagið kallar ekki á það að leikskólagjöld séu lækkuð. Mér finnst þetta líka vitlaust miðað við aðstæður,“ segir Áslaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×