Innlent

Fíklar óku um og ollu tjóni

Benedikt Bóas skrifar
Það gekk ýmislegt á um helgina eins og kemur fram í dagbók lögreglunnar.
Það gekk ýmislegt á um helgina eins og kemur fram í dagbók lögreglunnar. vísir/gva
Mikill erill var hjá lögreglu um helgina og voru fangageymslur við Hverfisgötu fullar. Þurfti að vista fjórtán í Hafnarfirði aðfaranótt laugardags. Ökumenn undir áhrifum fíkniefna voru áberandi í dagbók lögreglunnar. Þannig var einn 17 ára stoppaður sem reyndist einnig með fíkniefni í bílnum. Þurftu foreldrar hans að koma á stöðina og sækja drenginn.

Einn velti bíl sínum við Krísuvíkurveg en slapp með minniháttar hrufl eins og segir í dagbókinni. Þá ók einn á gangstéttum við Ægisíðu og skemmdi bifreiðina áður en hann var stöðvaður. Þá má rekja umferðaróhapp á Skólavörðustíg til fíkniefnaaksturs.

Eini allsgáði ökumaður helgarinnar sem kemur fyrir í dagbók lögreglu er ungur maður á bifhjóli við Hlemm. Eftirför lögreglu endaði við Elliðaár þar sem ökumaðurinn datt af hjólinu. Hann slapp þó ómeiddur en hann ók á móti einstefnu, á móti rauðu ljósi, á gangstígum og fleira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×