Enski boltinn

Juventus vill stela Can frá Liverpool

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gæti Emre Can verið á leið frá Liverpool?
Gæti Emre Can verið á leið frá Liverpool? Vísir/Getty
Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að Juventus hafi augastað á Emre Can og ætli að bjóða 30 milljónir evra, jafnvirði 3,1 milljarða króna, fyrir miðjumanninn þýska.

Can á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Liverpool og hafa viðræður um nýjan samning gengið hægt í sumar.

Gazzetta dello Sport segir að Juventus hafi hug á að freista Liverpool með tilboði í stað þess að gefa Can tækifæri til að fara frítt næsta sumar.

Jürgen Klopp vill þó halda Can hjá Liverpool en hann stendur nú í ströngu í baráttu sinni fyrir að halda Philippe Coutinho hjá félaginu en hann hefur verið orðaður við Barcelona í sumar.

Can hóf ferilinn hjá Bayern München í Þýskalandi en skipti yfir til Bayer Leverkusen árið 2013. Ári síðar var hann keyptur til Liverpool þar sem hann hefur skorað sjö mörk í 89 leikjum í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×