Enski boltinn

Tap í kvöld og Liverpool jafnar 94 ára gamalt met

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn Liverpool voru niðurlútir eftir tapið fyrir Wolves á laugardaginn.
Leikmenn Liverpool voru niðurlútir eftir tapið fyrir Wolves á laugardaginn. vísir/getty
Tapi Liverpool fyrir Chelsea á Anfield í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni jafnar liðið vafasamt met frá árinu 1923.

Liverpool hefur tapað þremur leikjum í röð á heimavelli og tapi liðið í kvöld verður það í fyrsta sinn í 94 ár sem Liverpool tapar fjórum heimaleikjum í röð.

Liverpool tapaði fyrir Swansea City í ensku úrvalsdeildinni þarsíðasta laugardag, fyrir Southampton í undanúrslitum deildarbikarsins á miðvikudaginn og fyrir Wolves í 4. umferð bikarkeppninnar á laugardaginn. Sannkölluð martraðarvika hjá Jürgen Klopp og strákunum hans.

Matt McQueen var við stjórnvölinn hjá Liverpool þegar liðið tapaði síðast fjórum heimaleikjum í röð. Þá tapaði Liverpool fyrir Aston Villa, Sheffield United, Cardiff City og Newcastle United í efstu deild í nóvember og desember 1923.

Stuðningsmenn Liverpool geta þó huggað sig við að frá því Klopp tók við hefur árangurinn gegn toppliðunum verið frábær. Í 14 deildarleikjum gegn Chelsea, Arsenal, Tottenham, Manchester City og Manchester United hefur Liverpool aðeins tapað einu sinni. Sex leikir hafa unnist og sjö endað með jafntefli.

Leikur Liverpool og Chelsea hefst klukkan 20:00 í kvöld. Hann verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD.


Tengdar fréttir

Jón Daði og félagar slógu Liverpool út á Anfield

Jón Daði Böðvarsson og félagar í Wolves gerðu sér lítið fyrir og slógu út úrvalsdeildarlið Liverpool í hádegisleik enska bikarsins en þetta var þriðja tap Liverpool á Anfield í röð.

Mane gæti náð leiknum gegn Chelsea

Liverpool sendi einkaþotu á eftir Sadio Mane í von um að hann geti verið til taks þegar liðið mætir Chelsea á þriðjudaginn næstkomandi en það má svo sannarlega segja að Liverpool hafi saknað hans í janúar.

Víkingaklappið boðar bara vandræði á Anfield

Aðra helgina í röð hljómaði víkingaklappið á Anfield eftir ósigur heimaliðsins fyrir Íslendingaliði. Jón Daði Böðvarsson fékk mikið hrós fyrir innkomu sína gegn Liverpool og var mjög óheppinn að skora ekki. Hjólin hafa losnað undan Liverpool-vagninum í janúar en liðið er án sigurs í deildinni og fallið úr báðum bikarkeppnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×