Innlent

Flugþróunarsjóður tekur stakkaskiptum

Svavar Hávarðsson skrifar
Fyrirmynd Flugþróunarsjóðs má finna víða, meðal annars í Svíþjóð og Finnlandi.
Fyrirmynd Flugþróunarsjóðs má finna víða, meðal annars í Svíþjóð og Finnlandi. vísir/gva
Stjórnvöld hafa rýmkað reglur flugþróunarsjóðs svo að beint flug frá útlöndum til Akureyrar og Egilsstaða er ekki lengur skilyrði styrkveitingar. Nú verða einnig styrkhæf flug sem koma erlendis frá en eru með beinar tengingar við aðra flugvelli á Íslandi. Þannig geta flug sem millilenda á Keflavíkur- eða Reykjavíkurflugvelli, en halda síðan áfram til Akureyrarflugvallar eða Egilsstaðaflugvallar, fengið styrk.

Jón Karl Ólafsson, framkvæmdastjóri flugvallasviðs Isavia, sem jafnframt situr í stjórn sjóðsins, segir að tilgangurinn með breytingunni sé að styðja við það markmið sjóðsins að ná jafnari dreifingu ferðamanna um landið með uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands, en markmið sjóðsins er að koma á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum.

Edward H. Huijbens
„Það má segja að breytt fyrirkomulag sé mun líklegra til að ná upphaflegu markmiði sjóðsins, og leyfa tengingar við þá staði þar sem flugfarþegar hópast nú þegar. Hluti þess vanda sem kom upp, þegar talað var við flugfélögin, var að litlar upplýsingar eru til um eftirspurnina á þessum svæðum sem um er að ræða. Með þessu næst vonandi að afla þeirra upplýsinga,“ segir Jón Karl sem játar því að tilraunin um beint flug hafi gengið hægar en vonast var til. Hann bætir þó við að þrjár umsóknir hafi borist í fyrra og 10 milljónum var úthlutað úr sjóðnum vegna beins flugs frá London til Egilsstaða. Það verkefni varð endasleppt.

„Vonandi verður árangurinn þannig að verkefnið verði framlengt þegar þar að kemur, því það þarf eflaust lengri tíma,“ segir Jón Karl.

Jón Karl Ólafsson
Edward H. Huijbens, prófessor við Háskólann á Akureyri, sem gjörþekkir málið, segist ekki vita til þess að flugfélög séu að fara að hefja áætlun eða flug á velli utan Keflavíkur í ár. Það sé staðan þrátt fyrir að búið sé að bjóða afslætti og aðra hvata. Hins vegar skuli litið til þess að sjóðurinn er nýr og ekki mikil reynsla komin á hann.

„Ég dreg bara fram þá áherslu sem ég geri alltaf, og hef gert í skýrslum sem annars staðar, að samhliða þessum hvötum þarf að verða til ferðavara, það er tilefni og tilgangur fyrir komu. Ef ein þota full af ferðamönnum myndi nú lenda á Akureyri, þá veit ég ekki alveg hvað við getum boðið þeim og þeir ættu líklega erfitt með að svara til hvers þeir komu – hvað þeir komu til að sjá eða upplifa. Þarna liggur vandinn. Þeir sem lenda í Keflavík vita vel hvað þeir vilja. En hvað er hér á Akureyri eða fyrir austan á Egilsstöðum. Við vitum það vel, en erlendir gestir hafa ekki skýra mynd af því,“ segir Edward. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×