Erlent

Neyðarástandi lýst yfir í Bandaríkjunum vegna óveðurs

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá New York í gær.
Frá New York í gær. vísir/afp
Yfirvöld í New York og New Jersey í Bandaríkjunum hafa lýst yfir neyðarástandi vegna óveðurs með fannfergi sem er að skella á. Bæði Icelandair og WOW air hafa aflýst öllu sínu flugi til norðausturstrandar Bandaríkjanna vegna þessa, en það eru samtals tíu flug.

Bandaríska veðurstofan hefur sent út viðvaranir fyrir hluta Pennsylvaníu, New Jersey og Connecticut og verður viðvörunin í gildi í einn sólarhring, eða frá klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma.

Gert er ráð fyrir um 30 metrum á sekúndu og allt að 44 sentímetra jafnföllnum snjó. Er því viðbúið að samgöngur fari úr skorðum en neðanjarðarlestarkerfinu í New York hefur þegar verið lokað.  Þá hefur allt að 6500 flugferðum verið aflýst, skólum hefur verið lokað og fólk hvatt til þess að vera ekki á ferli í dag.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur frestað för sinni vestur um haf vegna óveðursins, en hún er á leið þangað til viðræðna við Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Veturinn hefur verið afar mildur í norðausturhluta Bandaríkjanna í ár, en síðastliðinn febrúar mældist sá hlýjasti á þeim slóðum frá árinu 1895.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×