Erlent

Norsk hárgreiðslukona þarf að greiða bætur fyrir að hafa neitað konu með slæðu um afgreiðslu

Atli Ísleifsson skrifar
Merete Hodne og Malika Bayan.
Merete Hodne og Malika Bayan. Vísir/AFP
Hæstiréttur í Noregi hefur staðfest dóm lægra dómstigs í máli norskrar hárgreiðslukonu sem leitaði til dómstóla eftir að henni var gert að greiða bætur fyrir að hafa neitað að afgreiða konu sem klæddist slæðu og vísað henni út úr hárgreiðslu stofu sinni.

Norskir fjölmiðlar greina frá því í dag að dómur landsréttar í máli hágreiðslukonunnar Merete Hodne hafi verið staðfestur í Hæstarétti, sem þýðir að Hodne þarf að greiða sjö þúsund norskra króna bótagreiðslu, um 92 þúsund íslenskra króna, fyrir að hafa mismunað konunni.

Hodne rekur hárgreiðslustofu í Bryne, suður af Stafangri, og hefur verið virk í samtökunum Pegida og Stopp Islamiseringen av Norge sem bæði berjast gegn komu innflytjenda til Noregs.

Málið kom til kasta dómstóla þegar Hodne neitaði að greiða sektina til Malika Bayan, konunnar sem var neitað um afgreiðslu. Héraðsdómur hafði áður kveðið upp þann dóm að um mismunun á grundvelli trúarbragða hafi verið að ræða.

Bayan hafði komið inn á stofuna ásamt vinkonu sinni til að athuga hvað myndi kosta að fá strípur í hárið. „Í mínum huga er hijab sérstaklega pólitískt tákn. Mér líður ekki vel þegar ég sé fólk með hijab,“ sagði Hodne fyrir dómi og kvaðst hafa beðið konurnar um að fara á aðra stofu.

Dómstóll hafði áður dæmt Hodne til að greiða 10 þúsund norskar króna, auk alls málskostnaðar, en Hodnes áfrýjaði dómnum til millidómsstigs þar sem sektin var lækkuð. Hæstiréttur staðfesti svo í morgun þann dóm.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×