Skólameistari Borgarholtsskóla segir hringt í skólann og beðið eftir iðnmenntuðum nemendum.
Í öllum löndum OECD er atvinnuleysi minna meðal þeirra sem hafa lokið iðnnámi á framhaldsskólastigi en þeirra sem lokið hafa almennu bóknámi á framhaldsskólastigi. Þetta kemur fram í skýrslu OECD, Menntun í hnotskurn 2016.
Samkvæmt Vinnumálastofnun voru 315 manns sem lokið hafa iðnnámi atvinnulausir í júní, samanborið við 428 sem lokið höfðu stúdentsprófi. Síðustu tvö ár má sjá að fleiri sem eru með stúdentspróf hafa verið atvinnulausir en þeir sem eru iðnmenntaðir. Jafnframt eru mun fleiri atvinnulausir sem lokið hafa háskólanámi en þeir sem hafa lokið iðnnámi eða stúdentsprófi. Á síðustu tveimur árum nam hlutfall atvinnulausra sem lokið höfðu iðnnámi átta til níu prósentum, stúdentsprófi ellefu til tólf prósentum og háskólanámi 21 til 29 prósentum.

„Það er mikil eftirspurn eftir því og miklu minni eftirspurn eftir þeim sem eru í akademísku bóklegu námi.“
Það er tvímælalaust mikil ásókn í fólk sem er að klára iðnnám í Tækniskólanum að mati Jóns B. Stefánssonar, skólameistara Tækniskólans. „Allir sem vilja vinna fara að vinna, það er frekar vandamál að verið sé að taka fólk of snemma.“
Jón segir að í uppsveiflu í efnahagslífinu sé eftirspurn eftir því fólki og það hafi áhrif á skólann og aðsóknina.

Mismunur sé milli greina og sveifla milli tímabila. „Í iðnnáminu hefur verið meiri sókn í byggingagreinar en ekki samt allar. Það vantar fólk í múrsmíði og dúklagnir.“
Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, sviðsstjóri fagsviðs mennta- og mannauðsmála hjá Samtökum iðnaðarins, segir þetta í raun eina af stóru áskorununum.
„Sumt horfir maður á til skemmri tíma og sér grafalvarlega stöðu sem blasir við, það er til dæmis varðandi fólk sem tengist framreiðslustörfum og öðru í ferðaþjónustu. Gríðarlegur skortur er einnig í hefðbundnum tækni- og byggingagreinum. Við sjáum þetta líka í greinum eins og kjötiðn og bakaragreinum.“