Innlent

Unnið að jöfnum tækifærum fyrir alla nemendur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Menntamálaráðuneytið hefur skuldbundið sig til þess að innleiða og fylgja nýjum viðmiðum sem hafa það að markmiði að veita nemendum jöfn tækifæri í menntakerfinu.  Samhliða því verða fjárveitingar innan menntakerfisins endurskilgreindar.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið stóð í dag fyrir málþingi um framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi, en um er að ræða samstarfsverkefni nokkurra menntamálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Skólameistarafélags Íslands og heimilis og skóla.

Farið var yfir úttekt Evrópumiðstöðvarinnar og stýrihóps menntamálaráðuneytisins þar sem lögð eru til sjö viðmið sem hafa það að markmiði að veita nemendum jöfn tækifæri innan skólakerfisins.

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.vísir/sigurjón ólason
Verkefnið nær til ársloka 2019 en í forgangi verður að endurskoða fjárveitingar til skólakerfisins, að ná samkomulagi um lágmarksþjónustu til stuðnings menntunar án aðgreiningar og að umræðum um menntun án aðgreiningar verði framhaldið.

Áskorun fram undan

Kristján Þór Júlísson menntamálaráðherra segir að í framhaldinu verði endurskoðað hvernig fjármunir í skólakerfinu séu nýttir.

„Það er einn af þáttunum sem við þurfum að fara ofan í. Í skýrslunni og greiningunni sem Evrópumiðstöðin vann fyrir okkur kemur fram að við erum ekki að fara nægilega vel með þá fjármuni sem við erum að setja í þennan þátt námsins. Við getum og þurfum að skilgreina betur hvernig við ætlum að nýta þetta,“ segir hann.

Aðspurður hvort börn fái ekki jöfn tækifæri innan menntakerfisins líkt og staðan sé nú, segir Kristján að alltaf sé hægt að gera betur. „Að mörgu leyti stöndum við okkur mjög vel, en við getum alltaf gert betur. Það er samdóma álit allra sem að þessu verki koma að það sé þó nokkur áskorun sem við erum að takast á við og að gera betur.“

Allir eigi að geta notið skólagöngunnar

Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir að ýmsu sé að huga.

„Það hefur ekki tekist nógu vel að hrinda þessari stefnu í framkvæmd. Þess vegna er verið að skoða þessi mál svona gaumgæfilega. Rófið er náttúrulega mjög fjölbreytt; við erum með nemendur sem eru með sérþarfir, svo erum við með bráðgera nemendur og allt þar á milli og allir nemendur eiga að geta notið skólagöngu sinnar og geta fengið þá þjónustu sem þeir þurfa innan skólakerfisins,“ segir hún.

Þá séu foreldrar ekki síður mikilvægur þáttur í þessu samhengi. „Það er misjafnt hvaða þjónustu börn fá og foreldrar upplifa það. Ef börn þurfa einhverja sérþjónustu þá stundum finnst foreldrum að þeir þurfi að sækja rétt þeirra, í sumum tilfellum. Sums staðar gengur mjög vel en annars staðar ekki,“ segir Hrefna og bætir við að þetta þurfi að skoða.

„Það væri mun einfaldara fyrir foreldra að þurfa ekki að leita víða, til dæmis að sækja þjónustu út í bæ og svo aftur í skólann. Þetta flækir stundarskrá barnsins, flækir daginn og jafnvel getur hindrað að það komist í einhverjar frístundir. Þetta getur verið mjög krefjandi fyrir foreldra og jafnvel kostnaðarsamt.“

Nánar um ný viðmið á vef Stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×