Innlent

Fimm og hálfs árs fangelsi fyrir tvær nauðganir

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness Vísir/Hari
Nítján ára piltur hefur verið dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga tveimur fimmtán ára stúlkum í sumar. Hann var átján ára þegar brotin áttu sér stað. Ekki var farið fram á gæsluvarðhald yfir piltinum eftir að fyrra málið kom fram. Sex dögum síðar nauðgaði hann annarri fimmtán ára stelpu. Fréttatíminn greindi frá dómnum í morgun.

Pilturinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness þann 30. desember en málið var dómtekið fyrr í mánuðinum. Í fyrra skiptið nauðgaði hann fimmtán ára stelpu á heimili sínu í Reykjanesbæ þann 25. júlí. Lýsti stelpan hrottalegri líkamsárás þar sem pilturinn tók hana kverkataki, sparkaði og sló, steig ofan á háls hennar, hótaði að drepa hana og nauðgaði henni tvívegis.

Í dóminum kemur fram að eftir fyrri nauðgunina hafi foreldrar drengsins farið með hann á geðdeild og óskað eftir aðstoð. Hann var hins vegar ekki lagður inn og undruðust foreldrar hans þá ákvörðun. Þá var ekki farið fram á gæsluvarðhald yfir piltinum.

Foreldrar útskýrðu að samband þeirra við son þeirra hefði verið afar erfitt undanfarin misseri. Hann væri í félagsskap sem þau þekktu ekki til, hefði flosnað upp úr vinnu og snúið sólarhringnum við. 

Sjá einnig:Fundu rúmfötin í ruslinu

Nokkrum dögum eftir að foreldrar piltsins óskuðu eftir að sonur þeirra yrði lagður inn á geðdeild nauðgaði hann annarri fimmtán ára gamalli stúlku í austurbæ Reykjavíkur. Stelpan var flutt illa leikin á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis. Í framhaldinu var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Fyrir dómi lýsti þolandi seinni nauðgunarinnar hvernig gamli vinahópur hennar hefði hafnað henni eftir atburðinn og sagði móðir hennar að hún hafi einangrast í kjölfarið. 

Við geðrannsókn á piltinum kom fram að hann ætti erfitt með að finna til með öðrum og að axla ábyrgð en væri engu að síður sakhæfur. Hann neitaði sök í báðum brotum en neitaði að gefa skýrslu fyrir dómi. 

Báðar stúlkurnar hafa átt afar erfitt uppdráttar eftir brotin, ekki nýtt sér alla tíma hjá sálfræðingi og gengið verr í skólanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×