Innlent

Bjarni segir fráleitt að skýrslan hafi verið mikilvæg í aðdraganda kosninga

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra. vísir/ernir
Forsætisráðherra segir algjörlega fráleitt að upplýsingar í nýrri skýrslu um Leiðréttinguna hafi verið mikilvægar í umræðu í aðdraganda kosninga. Hann hafnar ásökunum stjórnarandstöðunnar um svindl og blekkingar en viðurkennir að það hafi tekið of langan tíma að koma upplýsingunum á framfæri.

Skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána eða Leiðréttinguna var tilbúin um miðjan október í fyrra en ekki birt fyrr en 18. janúar.

Svindl og blekkingar

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu forsætisráðherra og þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra harðlega á Alþingi fyrr í vikunni. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, sagði Bjarna hafa haldið bæði skýrslunni um Leiðréttinguna og skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum vísvitandi leyndum í aðdraganda kosninga. Hann hefði í raun beitt þjóð og þing blekkingum. Þá var forsætisráðherra sakaður um svindl.

„Ég lít á þennan atburð sem svindl. Ég lít á það þannig að hæstvirtur forsætisráðherra hafi snúið á þingið og þjóðina með því að fela þessar skýrslur,“ sagði Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar.

Tók of langan tíma

Skýrslan um Leiðréttinguna, sem er átta blaðsíður, var unnin á grundvelli skýrslubeiðnar þingmanna en hún tók um 19 mánuði í vinnslu.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir vinnslu á þessu svari hafa tekið tekið of langan tíma í fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

„Það verður að hafa það í huga hér að fyrirspurnir, þær renna út sem sagt þegar að þingstörfum lýkur. Þess vegna var það rétt hjá fjármálaráðuneytinu, þar sem að upplýsingarnar voru komnar fram í ráðuneytið eða voru tilbúnar, að koma þessu á framfæri í skýrsluformi. En að öðru leyti kann ég nú ekki vel skýringu á því hvers vegna þetta tók þetta langan tíma,“ segir Bjarni.

Ríkisstjórnin stolt af Leiðréttingunni

Hann segir ekkert varðandi þessa upplýsingagjöf vera svindl eða blekkingar.

„En ég ætla hins vegar ekki að gera lítið úr því að það hefur því miður tekið of langan í þessu tiltekna máli að taka saman upplýsingarnar. Svo getum við tekið aðra sérstaka umræðu um það hvaða þýðingu þau svör hefðu haft í einhverju stóra samhengi hlutanna. Mér finnst algjörlega fráleitt að menn séu að tengja þetta við umræðu sem að hafi verið mikilvæg fyrir kosningar. Vegna þess að ríkisstjórnin sem að þá var, hún vildi allt gera til að koma umræðu um Leiðréttinguna á dagskrá, enda stolt af þeirri aðgerð,“ segir Bjarni.


Tengdar fréttir

Skýrslan var tilbúin fyrir kosningar að undanskilinni einni efnisgrein

Skýrsla um skiptingu skuldaleiðréttingarinnar, sem ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokks stóð fyrir, var tilbúin um miðjan október en hún var ekki birt fyrr en 18. janúar í síðustu viku inn á vef Fjármála-og efnahagsráðuneytisins. Þá höfðu liðið þrír mánuðir frá því að skýrslan var tilbúin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×