Innlent

Reiður kærasti með eggvopn handtekinn í Árbæ

Birgir Olgeirsson skrifar
Talsverður erill hjá lögreglu í nótt.
Talsverður erill hjá lögreglu í nótt. Vísir/HARI
Á öðrum tímanum í nótt barst lögreglu tilkynning um reiðan kærasta með eggvopn á ferð í Hálsahverfi í Árbænum. Maðurinn var handtekinn skömmuð síðar grunaður um brot á vopnalögum og vörslu ætlaðra fíkniefna. Var hann vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður síðar í dag.

Annars var töluvert að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Um miðnætti var ökumaður stöðvaður í vesturbænum grunaður um ölvun við akstur. Hann var látinn laus að lokinni blóðtöku.

Skömmu síðar var tilkynnt um karlmann sofandi ölvunarsvefni í miðbænum. Lögreglu tókst ekki að vekja viðkomandi og var hann því vistaður í fangageymslu þar til af honum rennur.

Um svipað leyti var annar ökumaður stöðvaður grunaður um ölvun við akstur, en hann var látinn laus að lokinni blóðtöku.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var karlmaður sleginn og rotaður. Ekki er vitað um árásaraðila.

Rétt fyrir klukkan þrjú var tilkynnt um umferðaróhapp á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar. Um var að ræða tvo bíla en að minnsta kosti tveir voru fluttir á slysadeild.

Rétt fyrir miðnætti í gær var lögreglu tilkynnt um unglingahóp með læti í Hafnarfirði.

Á öðrum tímanum í nótt var tilkynnt um ofurölvaðan mann dettandi á gangstétt í Hafnarfirði. Sá sem það tilkynnt taldi að maðurinn gæti farið sér að voða ef ekkert yrði að gert. Lögreglan fór á vettvang en viðkomandi fannst ekki.

Um eitt leytið í nótt var kvartað undan hávaða frá flugeldum í Salahverfi en þeir sem skutu upp flugeldunum fundust ekki.

Rétt fyrir klukkan þrjú í nótt var tilkynnt um slagsmál í Kópavogi. Þegar lögreglan kom á vettvang voru árásaraðilar farnir af vettvangi.

Á fjórða tímanum í nótt var tilkynnt um bifreið upp á steini í Grafarvogi. Sá sem var grunaður um að hafa ekið bílnum var handtekinn og fluttur á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Að lokinni blóðtöku var ökumaður vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×