Enski boltinn

Jones: Aðeins þrír stjórar hafa trú á mér og Van Gaal var ekki einn þeirra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Phil Jones.
Phil Jones. vísir/getty
Phil Jones, miðvörður Manchester United, viðurkennir að hann íhugaði að yfirgefa Old Trafford í sumar eða þar til José Mourinhi mætti á svæðið. Hann er ánægður með lífið undir stjórn Portúgalans.

Jones átti í miklum vandræðum með að koma sér í liðið hjá Louis van Gaal og íhugaði að fara frá United til þess að geta spilað reglulega. Van Gaal fannst Jones aldrei vera í standi.

„Af einhverjum ástæðum fannst Van Gaal alltaf að ég þyrfti að vera í betra formi. Ég hafði ekkert út á það að setja, ég spilaði bara leikina. Ég gerði það sem ég gat til að komast aftur í liðið en því miður gengu hlutirnir ekki upp fyrir mig þegar hann stýrði liðinu,“ segir Jones í viðtali við Manchester Evening News.

„Það er engin spurning að framtíð mín var í óvissu. Það er alltaf þannig ef maður er ekkert að spila.“

Nú er lífið hjá miðverðinum miklu betra þar sem hann er orðinn fastamaður í vörn Manchester United sem er í baráttunni um Meistaradeildarsæti og enn á lífi í þremur bikarkeppnum.

„Það hafa aðeins þrír stjórar trú á mér og skilja mig sem leikmann. Ég er ekki að gagnrýna hina stjórana en þetta eru Sam Allardyce, Sir Alex Ferguson og núna José Mourinho. Þeir hafa trú á mínum hæfileikum. Það þarf ekkert að klappa mér á bakið alla daga en þessir þrír gáfu mér sjálfstraust,“ segir Phil Jones.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×