Erlent

Norsk leikkona sakar Weinstein um nauðgun

Samúel Karl Ólason skrifar
Norska leikkonan Natassia Malthe.
Norska leikkonan Natassia Malthe. Vísir/AFP

Norska leikkonan Natassia Malthe segir Harvey Weinstein hafa nauðgað sér eftir BAFTA-verðlaunin árið 2008. Hann hafi ruðst inn á hótelherbergi hennar í London og þulið upp nöfn frægra leikkvenna sem hann hafi gert af stjörnum því þær sænguðu hjá honum . Þá hafi hann nauðgað henni.

Malthe hélt blaðamannafund í New York í gærkvöldi þar sem hún sagðist ítrekað hafa sagt Weinstein að hún hefði ekki áhuga á að sænga hjá honum.

Hún segir Weinstein hafa lofað sér hlutverki í kvikmynd gegn því að sænga hjá honum. Hún hafi neitað en hann hafi byrjað að fróa sér fyrir framan hana. Eftir neitanir hennar muni hann hafa hent henni á rúmið og nauðgað henni.

Fjölmargar konur hafa sakað Weinstein um nauðgun og kynferðislega áreitni á undanförnum vikum. Nú síðast á þriðjudaginn sakaði önnur kona hann um nauðgun samkvæmt frétt Guardian. Talsmaður Weinstein sendi út tilkynningu frá honum þar sem hann neitar því að hafa nauðgað nokkurri konu.

Malthe segir einnig að Weinstein hafi haldið áfram að áreita hana á næstu árum, þegar hún var að reyna að byggja upp feril sinn sem leikari. Meðal annars hafi hann eitt sinn beðið hana um að taka þátt í hópkynlífi nokkrum árum seinna. Þá var til viðræðna að hún léki í kvikmynd sem Weinstein kom að.

Malthe sagðist hafa sagt Weinstein að það að leika í kvikmyndum væri ekki þess virði ef þetta væri kostnaðurinn. Hún hafnaði honum og yfirgaf Bandaríkin í kjölfarið.

„Mér fannst eins og draumar mínir hefðu verið eyðilagðir,“ sagði Malthe. „Leikkonur eiga ekki að þurfa að lítillækka sig til þess að ganga vel í ferli sínum.“ Hún sagðist hafa orðið fyrir áreitni frá mörgum mönnum í Hollywood, en Weinstein hefði verið sá versti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×