TV4 er stærsta einkarekna sjónvarpsstöðin í Svíþjóð og hefur tekið alla þætti sjónvarpsmannsins, sem sýna átti í haust, af dagskrá.
Fjölmargar konur hafa greint frá því á samfélagsmiðlum með kassamerkinu #metoo að þær hafi þurft að sæta kynferðislegri áreitni af hendi sjónvarpsmannsins á síðustu árum.
Timell hefur meðal annars stjórnað skemmtiþættinum Deal or no deal og Äntligen hemma, þáttar þar sem fylgst er með framkvæmdum á heimilum fólks.
Í samtali við fréttastofu TV4 viðurkenndi Timell að hafa káfað á samstarfskonum og að hann ætli að hringja og biðja konur afsökunar, auk þess að hann hafi leitað sér aðstoðar. „Ég hef ekki gert mér grein fyrir því að ég hafi farið illa með fólk.“ Þá segir hann að TV4 hafi gert rétt með því að láta sig fara og taka þætti hans af dagskrá. Hann sé í áfalli að hann hafi farið illa með svo marga.
Mikið hefur verið fjallað um kynferðislega áreitni innan sænska fjölmiðlageirans að undanförnu og hefur annar vinsæll sænskur sjónvarpsmaður, sem starfar hjá ríkissjónvarpinu SVT, verið ásakaður um kynferðislega áreitni. SVT hefur þó ákveðið að taka þætti hans ekki af dagskrá, þó að það verði endurskoðað leiði rannsókn í ljós að hann hafi gerst brotlegur.
Sömuleiðis hafa sænskir fjölmiðlar einnig mikið fjallað um kynferðislega áreitni inni á ritstjórnarskrifstofum Aftonbladet, þar sem tveir karlmenn á ritstjórninni hafa verið kærðir fyrir nauðgun. Konur á ritstjórninni hafa margar greint frá því hafa þurft að sitja undir kynferðislegri áreitni og að þar hafi ríkt þöggunarmenning innandyra.