Erlent

Svíþjóðardemókratar með meiri stuðning en Hægriflokkurinn

Stefan Löfven, forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmanna, og Anna Kinberg-Batra, formaður Moderaterna.
Stefan Löfven, forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmanna, og Anna Kinberg-Batra, formaður Moderaterna. Vísir/AFP
Ný könnun sænsku hagstofunnar (SCB) sýnir að sænski Hægriflokkurinn (Moderaterna) hafi misst mest fylgi milli kannanna. 18,1 prósent segjast nú styðja flokkinn, 4,7 prósent færri en í síðustu könnun sem gerð var í nóvember á síðasta ári.

Hægriflokkurinn hefur ekki mælst með minni stuðning frá árinu 2003 þegar flokkurinn mældist með 16,8 prósent stuðning. Sama ár lét Bo Lundgren af formennsku í flokknum og Fredrik Reinfeldt tók við.

Samkvæmt nýrri könnun SCB er Hægriflokkurinn ekki lengur annar stærstu flokkurinn í Svíþjóð, en fylgi við Svíþjóðardemókrata eykst um 0,9 prósent milli kannanna og segjast nú 18,4 prósent styðja flokkinn.

Jafnaðarmannaflokkurinn mælist sem fyrr stærstur eða með 31,1 prósent stuðning, 1,9 prósent meiri en í nóvember 2016. Það eru einnig fleiri en studdu flokkinn í þingkosningunum 2014.

Miðflokkurinn heldur áfram að bæta við sig fylgi undir formennsku Annie Lööf og mælist nú með 11,3 prósent fylgi, aukning um 4,2 prósent milli kannanna.

Vinstriflokkurinn mælist með 6,3 prósent (-1,4 prósent frá síðustu könnun), Umhverfisflokkurinn 4,5 prósent (sama og í síðustu könnun), Kristilegir demókratar 3,2 prósent (+0,1 prósent) og Frjálslyndi flokkurinn 5,0 prósent (sama og í síðustu könnun). Aðrir flokkar mælast samtals með 2,2 prósent stuðning.

SCB birtir kannanir sem þessar tvisvar á ári þar sem úrtakið er stærra en gengur og gerist í skoðanakönnunum.

Þingkosningar fara að óbreyttu fram í Svíþjóð síðsumars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×