Hinrik prins, eiginmaður Margrétar Þórhildar Danadrottningar, hefur verið lagður inn á Rigshospitalet í Kaupmannahöfn.
Danskir fjölmiðlar segja prinsinn hafi verið lagður inn eftir að hafa fundið fyrir eymslum í hægri fæti í kjölfar aðgerðar í nára sem hann gekkst undir í síðasta mánuði.
Hinrik hefur að undanvörnu verið í fríi í suðurhluta Frakklands, en neyddist til að halda aftur heim til Danmerkur þar sem hann varð lagður inn á sjúkrahúsið.
„Prinsinn fær lyfjameðferð. Það eru engar frekari skurðaðgerðir fyrirhugaðar að svo stöddu,“ er haft eftir Lena Balleby, fjölmiðlafulltrúa dönsku konungsfjölskyldunnar.
Mikið hefur verið fjallað um Hinrik prins í fjölmiðlum að undanförnu vegna ákvörðunar hans um að hann vilji ekki verða grafinn við hlið drottningarinnar og eiginkonu sinnar í Hróarskeldu þegar sá tími kemur.
Ekki er ljóst hve lengi hinn 83 ára Hinrik þarf að dvelja á Rigshospitalet.