Robert Harward, fyrrverandi aðstoðaraðmíráll í bandaríska hernum, hefur hafnað boði um að gerast þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta. Talsmaður Hvíta hússins segir að Harward hafi afþakkað boðið af persónulegum og fjárhagslegum ástæðum.
Fjölmiðlar í Bandaríkjunum segja þó að aðalástæðan hafi verið sú að hann hafi viljað koma með eigið starfslið inn í Hvíta húsið sem hafi ekki verið í boði.
Mikil pressa er nú á forsetanum í kjölfar þess að Michael Flynn hrökklaðist úr embætti þjóðaröryggisráðgjafa eftir að í ljós kom að hann hafði átt í samskiptum við sendiherra Rússa áður en hann tók við embætti.
Trump skipaði hershöfðingjann Keith Kellogg sem þjóðaröryggisráðgjafa til bráðabirgða í kjölfar afsagnar Flynn. Möguleiki er á að Kellogg fái fasta ráðningu, en nafn fyrrverandi forstjóra bandarísku leyniþjónustunnar, David Petraeus, hefur einnig verið nefnt.
Harward er fyrrverandi aðstoðaraðmíráll og liðsmaður sérsveita bandaríska flotans (Navy SEAL). Hann átti sæti í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna í forsetatíð George W. Bush. Eftir að hann hætti í hernum hefur hann gegnt yfirmannsstöðu hjá Lockheed Martin í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
