Lögreglan gengur ekki út frá því að morðið á Birnu Brjánsdóttur geti hafa verið manndráp af gáleysi. Nokkur umræða hefur spunnist um fréttir þess efnis að lögregla útiloki ekki að um gáleysisbrot sé að ræða.
Grímur Grímsson, sem fer fyrir rannsókn málsins, segir að honum sé að vissu leyti um að kenna að umræða um mögulegt gáleysisbrot hafi átt sér stað. Haft hafi verið eftir honum að ekkert væri útilokað um það. Grímur segir að lögreglan rannsaki að sjálfsögðu ásetningsstig manndrápsins. Hann tekur þó fram að lögreglan gangi alls ekki út frá því, eins og staðan er núna, að um manndráp af gáleysi sé að ræða. Ekkert í málinu sé þó útilokað fyrr en rannsókn þess sé lokið.
Lögreglan hélt áfram að fara yfir rannsóknargögn í gær en lét vera að yfirheyra sakborningana tvo sem sitja í gæsluvarðhaldi, grunaðir um að bana Birnu. Í dag eru sex dagar eftir af gæsluvarðhaldinu en lögreglan hefur tækifæri til að fara fram á framlengingu gæsluvarðhalds á grundvelli rannsóknarhagsmuna, að því loknu.
Engar játningar liggja fyrir í málinu enn sem komið er en lögregla segir fullvíst að Birna hafi verið farþegi í bílnum sem mennirnir höfðu til umráða og telur að henni hafi verið ráðinn bani í bílnum. Blóðsýni úr Birnu bendi eindregið til þess.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu
Innlent