Innlent

Pósturinn fær ekki að fella niður afslátt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Viðbótarafslættirnir gilda hjá söfnunaraðilum á póstmarkaði en það eru fyrirtæki á borð við Burðargjöld og Póstmarkaðinn.
Viðbótarafslættirnir gilda hjá söfnunaraðilum á póstmarkaði en það eru fyrirtæki á borð við Burðargjöld og Póstmarkaðinn. vísir/arnþór
Póst- og fjarskiptastofnun hefur tekið bráðabirgðaákvörðun um að Íslandspósti sé ekki heimilt að fella niður svokallaða viðbótarafslætti vegna reglubundinna viðskipta. Stofnunin segist þurfa fullnægjandi rökstuðning frá fyrirtækinu.

Viðbótarafslættirnir gilda hjá söfnunaraðilum á póstmarkaði en það eru fyrirtæki á borð við Burðargjöld og Póstmarkaðinn sem safna pósti frá stórnotendum og miðla áfram til Íslandspósts, sem hefur einkarétt á dreifingu bréfa undir 50 grömmum.

Íslandspóstur tilkynnti um niðurfellinguna í apríl og átti hún að taka gildi 1. september. PFS óskaði eftir rökstuðningi vegna málsins eftir ábendingar frá markaðsaðila en stofnunin taldi sig ekki geta tekið afstöðu fyrr en eftir frekari rökstuðning. Burðargjöld fóru fram á bráðabirgðaúrskurð á meðan, sem stofnunin samþykkti.

Félag atvinnurekenda segist í tilkynningu fagna þessari ákvörðun. „[E]nda telur félagið að hefði uppsögn afsláttanna fengið að standa, hefði það haft gríðarlega neikvæð áhrif á samkeppni á póstmarkaði. Rekstrargrundvellinum hefði verið kippt undan starfsemi söfnunaraðila, þeir hefðu neyðst til að segja upp öllum sínum viðskiptasamningum og hætta starfsemi. Viðskipti þeirra hefðu fallið ríkisfyrirtækinu Íslandspósti sjálfu í skaut,“ segir á heimasíðu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×