Innlent

Íslendingar ánægðastir og óánægðastir með Bjarna

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. vísir/ernir
Bjarni Benediktsson er sá ráðherra sem Íslendingar eru ánægðastir með en einnig sá sem flestir eru óánægðir með, samkvæmt nýrri könnun Maskínu. Mikil óánægja var með frammistöðu ráðherranna almennt.

Alls sögðust 28 prósent vera ánægð með frammistöðu Bjarna en rúmlega 50 prósent sögðust óánægð með frammistöðu hans. Um tveir þriðju hlutar stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar eru ánægð með frammistöðu hans en aðeins um þrjú prósent þeirra sem styðja ekki ríkisstjórnina.

Á eftir Bjarna eru Íslendingar ánægðastir með frammistöðu Bjartar Ólafsdóttur umhverfisráðherra, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykgjörð Gylfadóttur, ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar, en um 23 prósent landsmanna voru ánægð með frammistöðu þeirra.

Tveir ráðherrar Viðreisnar; Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttur fylgja svo á hæla þeirra en 19-21 prósent voru ánægð með störf þeirra. Fæstir eru ánægðir með störf Jóns Gunnarssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, eða níu prósent.

Milli 11 og 13 prósent eru ánægð með frammistöðu Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra, Benedikts Jóhannessonar fjármálaráðherra, Óttars Proppé heilbrigðisráðherra og Kristjáns Þórs Júlíussonar menntamálaráðherra.

Þá segjast á milli 64 og 65 prósent Íslendinga ekki styðja ríkisstjórnina en á bilinu 35 til 36 prósent styðja hana.

Svarendur voru 778 talsins, af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Könnunin fór fram í gegnum netið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×