Erlent

Trump bað yfirmenn leyniþjónustunnar um að hreinsa sig opinberlega

Kjartan Kjartansson skrifar
Daniel Coats (t.v.) og Mike Rogers (t.h.) komu fyrir þingnefnd 7. júní en sögðu fátt.
Daniel Coats (t.v.) og Mike Rogers (t.h.) komu fyrir þingnefnd 7. júní en sögðu fátt. Vísir/EPA
Tveir æðstu yfirmenn leyniþjónustumála í Bandaríkjunum sögðu sérstökum rannsakanda dómsmálaráðuneytisins og þingnefnd að Donald Trump forseti hefði beðið þá um að lýsa því yfir opinberlega að ekkert samráð hafi átt sér stað á milli framboðs hans og Rússa.

Vitnisburður þeirra Dan Coats, yfirmanns leyniþjónustumála, og Mike Rogers, forstjóra Þjóðaröryggisstofnunarinnar (NSA), hjá Robert Mueller, sérstökum rannsakanda á meintum tengslum framboðs Trump við Rússa, og leyniþjónustunefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, fór fram fyrir luktum dyrum í síðustu viku.

CNN hefur eftir heimildamönnum að báðir hafi þeir sagt að bón Trump hafi verið „undarleg“ og „óþægileg“. Þeir hafi hins vegar ekki talið að forsetinn væri að skipa þeim fyrir og þeir hafi ekki orðið við óskum hans.

Létu lítið uppi á opnum nefndarfundi

Coats og Rogers báru einnig á opnum fundi leyniþjónustunefndarinnar fyrr í þessum mánuði. Það létu þeir hins vegar lítið uppi og vildu ekki greina frá samskiptum sínum við Trump.

Ástæðan fyrir því er sögð vera sú að þeir báðu Hvíta húsið um leiðbeiningar um hvort að forsetinn krefðist þess að trúnaður ríkti um samskipti þeirra. Engin svör bárust hins vegar áður en þeir komu fyrir nefndina. Því hafi þeir farið undan í flæmingi þegar þingmenn spurðu þá um samtöl við Trump.

James Comey sagði Trump þrisvar að hann væri ekki til rannsóknar en vildi engu að síður ekki lýsa því yfir opinberlega því þá hefði FBI skyldu til að leiðrétta það ef staða forsetans breyttist.Vísir/Getty
James Comey, sem Trump rak sem forstjóra alríkislögreglunnar (FBI) vegna rannsóknar hans á kosningateyminum og tengslum þess við Rússa, hafði áður lýst því við þingnefndina að forsetinn hefði sagst vona að hann hætti rannsókn á Michael Flynn, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafa sínum.

Ólíkt Coats og Rogers upplifði Comey orð forsetans þannig að hann væri að biðja hann um að hætta rannsókninni. Taldi hann Trump hafa rekið sig vegna rannsóknarinnar á Rússatengslunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×