Innlent

Formaður Flugvirkjafélags Íslands segir ekkert þokast áfram í átt að samkomulagi

Anton Egilsson og Nadine Guðrún Yaghi skrifa
Niðurstöður úr kosningu flugvirkja Icelandair um vinnustöðvun voru afgerandi og stefnir í hart á milli deiluaðila.
Niðurstöður úr kosningu flugvirkja Icelandair um vinnustöðvun voru afgerandi og stefnir í hart á milli deiluaðila. Vísir/Vilhelm
Óskar Einarsson, formaður Flugvirkjafélags Íslands, segir ekkert þokast áfram í átt að samkomulagi í samningaviðræðum félagsins og Icelandair en flugvirkjar sem starfa þar hafa boðað til ótímabundins verkfalls eftir viku.

Félagar í Flugvirkjafélagi Íslands sem starfa hjá Icelandair hafa boðað til verkfalls ótímabundið frá klukkan 06:00 þann 17. desember næstkomandi takist ekki að semja fyrir þann tíma.

„Aðallega er svo vegna þess að við höfum verið að ræða saman frá því í enda júlí. Samningar voru lausir 31. ágúst og við höfum bara ekki náð neinum árangri í samningaviðræðum. Það hefur í raun ekki þokast neitt í þá þátt sem að við vonuðumst til,“ sagði Óskar í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag.

Boðað var til fundar hjá ríkissáttasemjara í gær og segir Óskar að enn sé langt í höfn.

„Það munar þó nokkru því að við teljum okkur eiga inni launaleiðréttingu sem er búið að fara þó nokkur vinna í að finna út úr. Við höfum svo sem unnið það í samvinnu við okkar viðsemjendur og höfum komist að ákveðinni lausn í því máli og þar stendur það í dag.“

Verkfall myndi orsaka mikla röskun á flugi

Kosningu flugvirkja Icelandair um vinnustöðvun lauk í fyrradag.

„Það var afgerandi kosning að fara þessa leið þannig að það hlýtur að endurspegla hug manna,“ sagði Óskar.

Verði að verkfallinu mun það hafa í för með sér mikla röskun á flugi samkvæmt tilkynningu sem Icelandair sendi til Kauphallarinnar í fyrradag.

„Staðan er bara þessi einfaldlega út af því að okkur er komið í þessa stöðu og vissulega eru báðir aðilar ábyrgir fyrir því en eftir tuttugu fundi þá fer þetta svona,“ sagði Óskar að lokum.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×