Körfubolti

Stelpurnar fá nú jafnglæsilegan bikar og strákarnir | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýi bikarinn afhjúpaður í dag.
Nýi bikarinn afhjúpaður í dag. Vísir/Eyþór
Úrslitakeppni Domino´s deildar kvenna í körfubolta er að fara að hefjast og KKÍ hélt í dag kynningarfund með fjölmiðlum og þeim fjórum liðum sem taka þátt í úrslitakeppninni í ár.

Snæfell, Keflavík, Skallagrímur og Stjarnan komust í úrslitakeppnina í ár. Snæfell og Keflavík hafa verið fastagestir á þessu stærsta sviði kvennakörfunnar undanfarin ár en þetta er aftur á móti í fyrsta sinn sem lið Skallagríms og Stjörnunnar taka þátt í úrslitakeppni kvenna í körfubolta.

Á blaðamannafundinum var einnig kynntur nýr og glæsilegur bikar sem stelpurnar spila um í fyrsta sinn í þessari úrslitakeppni sem hefst strax eftir helgi.

Þetta er fjórði bikarinn sem stelpurnar spila um frá því að strákarnir fengu sinn bikar fyrir þremur áratugum og hafði verið spilað um nýjasta kvennabikarinn, KLM-Íslandsbikarinn, frá árinu 2011. Nýi bikarinn hjá konunum er eftirmynd hins glæsilega karlabikars.

Strákarnir hafa spilað um Sindra-Stál bikarinn frá árinu 1987 en nú hafa stelpurnar einnig fengið jafnglæsilegan bikar og strákarnir. Nýi bikarinn var til sýnis á blaðamannafundinum í dag og löngunin í Íslandsmeistaratitilinn var örugglega ekkert minni hjá stelpunum við að sjá nýja bikarinn á blaðamannafundinum í dag.

Vísir/Eyþór
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, með nýja Íslandsbikarinn í kvennakörfunni. Vísir/Eyþór



Fleiri fréttir

Sjá meira


×