Bíó og sjónvarp

Hrollvekjandi stikla fyrir Ég man þig fær hárin til að rísa

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Með aðalhlutverk í myndinni fara þau Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Sara Dögg Ásgeirsdóttir.
Með aðalhlutverk í myndinni fara þau Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Sara Dögg Ásgeirsdóttir.
Vísir frumsýnir nú nýja stiklu fyrir kvikmyndina Ég man þig sem frumsýnd verður eftir tæpan mánuð eða þann 5. maí næstkomandi. Myndin er gerð eftir samnefndri metsölubók Yrsu Sigurðardóttur en leikstjóri myndarinnar er Óskar Þór Axelsson.

Með aðalhlutverk í myndinni fara þau Jóhannes Haukur Jóhannesson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Anna Gunndís Guðmundsdóttir og Sara Dögg Ásgeirsdóttir. Framleiðendur eru Sigurjón Sighvatsson, Skúli Malmquist, Þórir Snær Sigurjónsson og Chris Briggs Fyrir hönd Zik Zak Kvikmynda.

Óhætt er að þessi nýja stikla fái hárin til að rísa en það ætti kannski ekki að koma þeim á óvart sem lesið hafa bókina enda er sagan afar spennandi og mjög hrollvekjandi á köflum.

Ég man þig kom út árið 2010 og er ein vinsælasta bók Yrsu. Hún hefur selst í tæplega 30 þúsund eintökum hér á landi og hefur komið út á yfir 20 tungumálum.

Söguþráðurinn er á þá leið að kona um sjötugt hengir sig í afskekktri kirkju á Vestfjörðum eftir að hafa unnið skemmdarverk á kirkjunni. Nýlega aðfluttur geðlæknir á Ísafirði, Freyr, aðstoðar lögreglu við rannsókn málsins en fljótlega kemur í ljós að nokkrir skólafélagar konunnar úr æsku hafa einnig látist undanfarin ár, öll annað hvort í dularfullum slysum eða fyrir eigin hendi. Frey bregður illa þegar í ljós kemur að sum hinna látnu höfðu haft óeðlilega mikinn áhuga á hvarfi sjö ára sonar hans sem gufaði upp þremur árum fyrr og hefur aldrei fundist.

Handan Ísafjarðardjúps á Hesteyri eru þrjú borgarbörn komin til að gera upp gamalt hús. Skömmu eftir komu þeirra verða þau þess áskynja að þau eru ekki ein á svæðinu. Sögurnar tvær tengjast smám saman þegar á líður, ekki síst í gegnum sextíu ára gamalt mannshvarfsmál 10 ára drengs.

Hér að neðan má sjá nýja stiklu fyrir myndina sem frumsýnd verður þann 5. maí eins og áður segir.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.