Innlent

Deilt um borðbúnað í Brautarholti

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
"Það hljómar dálítið sérstakt að kaupa eigi borðbúnað af Kvenfélagi Skeiðahrepps sem félagið ætlar væntanlega að nýta sér áfram í sinni fjáröflun."
"Það hljómar dálítið sérstakt að kaupa eigi borðbúnað af Kvenfélagi Skeiðahrepps sem félagið ætlar væntanlega að nýta sér áfram í sinni fjáröflun." vísir/magnús hlynur
Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur samþykkt að kaupa borðbúnað og skápa af kvenfélagi Skeiðahrepps fyrir 1,75 milljónir króna í félagsheimilið og leikskólann Brautarholt. Kvenfélagið vildi tæplega 2,7 milljónir króna fyrir leirtauið en fulltrúi F-listans sagði kaupin sæta furðu meðal annars því félagið hafi sjálft afnot af borðbúnaðnum. Tveir fulltrúar F-listans greiddu atkvæði á móti kaupunum.

„Það verður að teljast hæpið að sveitarfélagið sé að leggja í kostnað sem þennan þar sem veitingarrekstur telst varla til þeirrar starfsemi sem sveitarfélagið á að standa í, það sama má í raun segja um ýmsa aðra starfsemi sem rekin er í eigum sveitarfélagsins þar sem skattgreiðendur hafa verið að greiða með rekstri einstaklinga,“ sagði Gunnar Örn Marteinsson, fulltrúi F-listans framsýnar og uppbyggingar, í bókun sinni.

Þá sagði Gunnar engan skort vera á borðbúnaði. „Það hljómar dálítið sérstakt að kaupa eigi borðbúnað af Kvenfélagi Skeiðahrepps sem félagið ætlar væntanlega að nýta sér áfram í sinni fjáröflun, bent hefur verið á að stundum séu haldin ættarmót í húsinu og þá sé þörf á auknum borðbúnaði umfram það sem til er á staðnum. Slík starfsemi stendur varla undir kostnaði hjá sveitarfélaginu og spurning hvernig hún fer saman með rekstri leikskólans.“

Sveitarstjórnin samþykkti að endingu, með þremur atkvæðum gegn tveimur, að kaupa leirtau og skápa af kvenfélaginu á 1.750.000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×