Viðskipti innlent

Einkafjárfestar ná undirtökunum í VÍS og hafa augastað á Kviku banka

Hörður Ægisson skrifar
Herdís Fjeldsted (til hægri) taldi sig hafa stuðning meirihluta nýrrar fimm manna stjórnar til að gegna áfram formennsku í VÍS. Það mat reyndist rangt. Svanhildur Nanna var kjörin formaður félagsins eftir aðalfund í síðasta mánuði - og Herdís sagði sig skömmu síðar úr stjórn.
Herdís Fjeldsted (til hægri) taldi sig hafa stuðning meirihluta nýrrar fimm manna stjórnar til að gegna áfram formennsku í VÍS. Það mat reyndist rangt. Svanhildur Nanna var kjörin formaður félagsins eftir aðalfund í síðasta mánuði - og Herdís sagði sig skömmu síðar úr stjórn. Vísir/Anton
Með kjöri Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, fjárfestis og eins af stærstu hluthöfum VÍS, sem formanns stjórnar tryggingafélagsins í síðasta mánuði hefur einkafjárfestum í hluthafahópnum tekist að ná völdum í stjórn fyrirtækisins. Mikil átök hafa sett mark sitt á störf stjórnar VÍS á undanförnum misserum, sem hafa öðrum þræði snúist um ólíkar áherslur annars vegar fulltrúa lífeyrissjóðanna og hins vegar helstu einkafjárfesta félagsins, og birtist meðal annars í því að samtals hafa fimmtán manns setið í stjórn frá því í ársbyrjun 2015 og fjórir einstaklingar gegnt starfi stjórnarformanns yfir sama tímabil. Jafn tíð stjórnarskipti á svo skömmum tíma er einsdæmi á meðal félaga sem eru skráð í Kauphöllinni.

Í aðdraganda aðalfundar VÍS var ljóst að ákveðinn hópur hluthafa, sem samanstóð einkum af hjónunum Svanhildi og Guðmundi Erni Þórðarsyni, Sigurði Bollasyni, fjárfestingafélaginu Óskabeini og sjóðastýringarfyrirtækinu Stefni, vildi ná fram breytingum á stjórn og stefnu félagsins. Þessi hópur á samanlagt um 27 prósenta hlut í VÍS. Þá hafði Svanhildur uppi áform að taka við sem formaður af Herdísi Dröfn Fjeldsted, sem hefur verið studd af Lífeyrissjóði verslunarmanna, stærsta hluthafa VÍS, en hún hafði gegnt þeirri stöðu frá því í nóvember 2015. Svanhildur, en hún og eiginmaður hennar komu fyrst inn í hluthafahóp VÍS 2014 eftir að hafa selt Skeljung skömmu áður með milljarða hagnaði, átti í því skyni fundi með flestum af stærstu hluthöfum VÍS þar sem hún útlistaði sínar áherslur og upplýsti þá að hún myndi sækjast eftir formennsku, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Taldi sig hafa stuðning

Herdís taldi sig aftur á móti hafa stuðning meirihluta nýrrar fimm manna stjórnar til að gegna áfram formennsku í félaginu. Þannig var Helga Hlín Hákonardóttir, sem hafði setið í stjórn félagsins frá því í apríl 2016, þeirrar skoðunar að ekki væri ástæða til að skipta um formann og þá hélt Herdís að Valdimar Svavarsson, sem kom nýr inn í stjórnina og var einkum teflt fram af Sigurði Bollasyni, hefði jafnframt heitið henni stuðningi í aðdraganda aðalfundar. Valdimar starfaði í fyrirtækjaráðgjöf Virðingar en hafði látið þar af störfum skömmu áður en tilkynnt var um framboð hans til stjórnar VÍS.

Það fór hins vegar á annan veg – og jafnframt eru deildar meiningar um það á meðal hluthafa að Valdimar og Sigurður hafi nokkurn tíma lofað því að styðja Herdísi – og Valdimar studdi að lokum þá tillögu að Svanhildur yrði að formaður. Slíkt hið sama gerði Gestur Breiðfjörð Gestsson en hann er einn þeirra fjárfesta, ásamt meðal annars Andra Gunnarssyni lögmanni og Fannari Ólafssyni, sem standa að baki félaginu Óskabein sem á 5,9 prósent í VÍS. Aðrir möguleikar voru ræddir varðandi verkaskiptingu nýrrar stjórnar, til dæmis að Herdís yrði áfram formaður en Valdimar Svavarsson varaformaður, en ekki náðist sátt um þá niðurstöðu.

Þá hafði Þórður Már Jóhannesson, fjárfestir og fyrrverandi forstjóri Straums-Burðaráss, einnig kannað þann möguleika að gefa kost á sér í framboð til stjórnar og hitt hluthafa félagsins – bæði lífeyrissjóði og einkafjárfesta – og leitað eftir stuðningi, samkvæmt heimildum Markaðarins. Ekkert varð hins vegar af þeim áformum og Þórður Már ákvað að gefa ekki kost á sér skömmu áður en frestur til þess rann út.

Tókst í annarri tilraun

Aðeins um tveimur vikum eftir aðalfund VÍS þann 15. mars síðastliðinn tilkynnti Herdís að hún hefði ákveðið að segja sig úr stjórn félagsins. Í bréfi sem Svanhildur sendi í kjölfarið á ýmsa hluthafa félagsins, sem Markaðurinn hefur undir höndum og Vísir.is hefur áður greint frá, sagði hún ákvörðun Herdísar „vonbrigði“ en að hún hafi verið meðvituð um að Herdís hefði haft „væntingar“ um að verða áfram stjórnarformaður. Stjórn VÍS hafi talið þetta vera „góður tímapunktur“ til breytinga. „Það er mín skoðun,“ segir í bréfi Svanhildar, að „þegar fólk er í stjórn félags […] að þá sé óeðlilegt að gera þá kröfu að ef viðkomandi fái ekki stól formanns þá hafi hann ekki áhuga á að starfa að málefnum félagsins. Slíkt getur hreinlega ekki talist góðir og tilhlýðilegir stjórnarhættir.“

Herdís brást við bréfi Svanhildar síðar sama dag og sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hún sagði að það hefði verið „allan tímann skýrt af minni hálfu að ég sóttist eftir því að gegna áfram formennsku í stjórn félagsins og taldi ég mig hafa stuðning meirihluta stjórnar til þess. Á fyrsta fundi stjórnar kom í ljós að sá stuðningur reyndist ekki vera til staðar. Það fylgir því mikil ábyrgð að sitja í stjórn tryggingafélags og afar mikilvægt að innan stjórnar ríki algert traust um vinnubrögð og starfshætti stjórnar. Um þetta varð ágreiningur í aðdraganda aðalfundar og á fyrsta fundi. Ef traust er ekki til staðar er ekki hægt að ætlast til stjórnarsetu af viðkomandi stjórnarmanni.“

Í samtali við Markaðinn við vinnslu þessarar umfjöllunar vildi Herdís ekkert tjá sig umfram það sem fram kemur í yfirlýsingunni.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem sami hópur einkafjárfesta hafði gert atlögu að formennsku í félaginu. Á aðalfundi árið áður töldu þeir að samkomulag hefði náðst um það á meðal hluthafa að Benedikt Gíslason, sem þá kom nýr inn í stjórnina, myndi taka við sem formaður VÍS, samkvæmt heimildum Markaðarins. Svo fór ekki enda þótt Benedikt hefði fengið mestan stuðning í atkvæðagreiðslu á aðalfundi félagsins en Herdís verið með fjórðu flestu atkvæðin að baki sér í stjórninni.

Sjá tækifæri í Kviku

Að sögn heimildarmanna Markaðarins, sem þekkja vel til innan VÍS, ættu þær breytingar sem nú hafa orðið á stjórninni að auka líkur á því að tryggingafélagið muni áður en langt um líður falast eftir meirihluta í Kviku fjárfestingabanka. Tilkynnt var um kaup VÍS á 22 prósenta hlut í Kviku í ársbyrjun en skömmu áður hafði Sigurður Bollason og hjónin Svanhildur og Guðmundur, sem samanlagt eiga um 16 prósenta hlut í VÍS, keypt samtals 15 prósenta hlut í fjárfestingabankanum. Guðmundur tók fyrir skemmstu sæti í stjórn Kviku en vitað er að hann og Svanhildur, ásamt Sigurði og öðrum einkafjárfestum í hluthafahópi VÍS, hafa talað hvað mest fyrir kaupum eða sameiningu við Kviku, meðal annars í því skyni að ná fram samlegðaráhrifum í eignastýringarstarfsemi.

Í síðustu viku var tilkynnt að stjórnir Kviku og Virðingar hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna. Fjórir mánuðir voru þá liðnir frá því að félögin höfðu undarritað viljayfirlýsingu um undirbúning að samruna. 

Í fyrrnefndu bréfi Svanhildar til hluthafa VÍS er bent á að með kaupum VÍS á stórum hlut í Kviku í janúar hafi verið „opnaðar dyr að frekari útvíkkun“ á starfsemi tryggingafyrirtækisins. „Forstjóri félagsins hefur kynnt þetta sem eignadreifingu í fyrsta fasa með möguleika á að nýta þetta sem frekara skref í þróun á starfssviði félagsins,“ segir í bréfinu. Hún bendir hins vegar á að stefnumótunarvinna og ákvörðun um fjárfestingu VÍS í Kviku og „hugmyndavinna tengd þeim kaupum var unnin af forstjóra og þeirri stjórn sem sat fram að síðasta aðalfundi.“ Gert er ráð fyrir því að á „næstu vikum“ gefist nýrri stjórn tækifæri til að kynna betur þessa vinnu fyrir hluthöfum VÍS.

Samkvæmd heimildum Markaðarins hafa málefni Kviku þegar verið til umræðu á fundi nýrrar stjórnar félagsins. Í bréfinu til hluthafa áréttar Svanhildur aftur á móti að hún komi „ekki að ákvörðunum í stjórn í málum sem hafa með hlut félagsins í Kviku að gera“ enda séu meðal annars skýr ákvæði í hlutafélagalögum hvernig eigi að forðast slíka hagsmunaárekstra.

Langvarandi óánægja

Þrátt fyrir að það sé ekki yfirlýst markmið nýrrar stjórnar að „kollvarpa og gjörbreyta því starfi sem unnið er innan“ VÍS, eins og segir í bréfi Svanhildar, þá er það er ekkert launungarmál að helstu einkafjárfestar félagsins – og einnig Stefnir – hafa verið mjög gagnrýnir á að stjórnendum hafi ekki tekist að rétta við dræma afkomu þess í samanburði við TM og Sjóvá. „Það hefur því miður verið of mikið um breytingar á stjórn VÍS undanfarin ár. Stjórnarmenn hafa komið og farið og því miður hefur niðurstaða viðkomandi allt of oft verið sú að stjórnarmönnum finnst þeir ekki hafa komið í gegn breytingum sem voru nauðsynlegar til að bæta árangur félagsins. Þessu vil ég breyta,“ segir í bréfinu.

Óánægja á meðal hluthafa VÍS er ekki ný af nálinni. Hún náði líkast til hámarki þegar stjórn VÍS tók ákvörðun í mars 2016 að lækka boðaða aðgreiðslu til hluthafa, sem var ekki síst hugsuð til þess að ná fram hagkvæmari fjármagnsskipan, úr 5 milljörðum í ríflega 2 milljarða eftir mikla gagnrýni sem kom upp í samfélaginu vegna fyrirhugaðra arðgreiðslna tryggingafélaganna þriggja. Þetta mæltist afar illa fyrir hjá stærstu einkafjárfestum félagsins enda höfðu sumir þeirra, meðal annars Óskabein ehf., fjármagnað kaup sín í VÍS á sínum tíma að stærstum hluta með bankaláni. Þeir höfðu því mikla hagsmuni af því að tryggingafyrirtækið myndi fara að skila bættri afkomu svo arðgreiðslur gætu dugað til að standa straum af fjármagnskostnaði hluthafa vegna kaupanna.

Sú ákvörðun stjórnar VÍS var ekki hvað síst tekin eftir að sumir af stærstu lífeyrissjóðunum í hluthafahópnum höfðu farið fram á það við tiltekna stjórnarmenn að falla frá fyrri arðgreiðslutillögu. Í kjölfarið hefur verið afar „þung undiralda“ á meðal einkafjárfesta í VÍS, eins og einn viðmælandi Markaðarins orðar það, að ná fram breytingum þannig að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki tögl og hagldir á stjórn félagsins. Einu ári síðar hefur það markmið tekist og einkafjárfestarnir eru sestir við stýrið.

Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×