Innlent

Dró sambýliskonu sína fram úr rúminu á hárinu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað á sameiginlegu heimili fólksins í Hveragerði.
Árásin átti sér stað á sameiginlegu heimili fólksins í Hveragerði. vísir/vilhelm
Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt fimmtugan karlmann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína og brotið gegn nálgunarbanni. Honum var gert að greiða tæplega eina milljón króna í málskostnað.

Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa í september í fyrra veist með höggum að þáverandi sambýliskonu sinni þar sem hún lá í rúmi sínu, slegið hana í annan handlegginn með hurðakarmslista og í kjölfarið dregið hana fram úr rúminu á hárinu. Hann var í kjölfarið úrskurðaður í nálgunarbann gegn konunni en samkvæmt ákæru braut hann tólf sinnum gegn banninu með símtölum, smáskilaboðum og tölvupóstum.

Þá var maðurinn jafnframt ákærður fyrir eignaspjöll með því að hafa í nóvember síðastliðnum gengið berserksgang inni á sameiginlegu heimili hans og konunnar í Hveragerði, skemmt fjölmarga húsmuni, þar á meðal hljómlistarbúnað, eldhús- og rafmagnstæki, brotið gler og handfang á bakaraofni, skorið sófasessur og fleira. Tjónið var metið á rúmlega 1,3 milljónir króna. Konan dró hins vegar til baka kæru vegna eignaspjalla.

Maðurinn mætti ekki við þingfestingu málsins þrátt fyrir birtingu ákæru í Lögbirtingablaðinu. Þar var honum gert kunnugt að sæki hann ekki þing megi hann búast við því að fjarvist hans verði metin til jafns við það að hann viðurkenni að hafa framið brotið.

Dómurinn taldi sannað að hann hefði gerst sekur um fyrrnefnda háttsemi og dæmdi hann í fjögurra mánaða fangelsi sem er skilorðsbundið til tveggja ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×