
Forsvarsmenn Thorsil voru í október í fyrra á lokametrunum með að semja við fjóra lífeyrissjóði um að þeir myndu útvega fjóra milljarða króna í hlutafé. Þar var um að ræða Lífeyrissjóð verslunarmanna, LSR, Frjálsa lífeyrissjóðinn og Almenna lífeyrissjóðinn. Síðar í þeim mánuði var starfsleyfi Thorsil, sem fyrirtækið fékk í september 2015 og var síðan kært til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál í sama mánuði, fellt úr gildi vegna formgalla. Nýtt leyfi fékkst í febrúar síðastliðnum en það var kært þann 20. mars. Fer úrskurðarnefndin nú yfir þrettán blaðsíðna rökstuðning Landverndar, Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands og hóps íbúa í Reykjanesbæ.
„Það kom önnur kæra og við þurfum að vinna úr henni. Síðast tók það úrskurðarnefndina, sem hefur þrjá mánuði, þrettán mánuði og við vonum að það taki núna styttri tíma. Við reynum að halda mönnum upplýstum um þetta en við gerum okkur vonir um að nefndin sinni þessu hratt svo hún verði innan þriggja mánaða tímamarkanna. Við reynum að vinna út frá því,“ segir Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri Thorsil. Líkt og Gunnar bendir Hákon á áhrif kísilvers United Silicon í Helguvík á fjármögnun Thorsil.
„Það gengur allt á afturtfótunum þarna og þá finnur maður að menn vitna til þess. En við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en að staðið verði við gerða samninga varðandi fjármögnunina,“ segir Hákon.
Heildarfjármögnun verksmiðjunnar nemur 275 milljónum dala. Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, staðfesti í samtali við Fréttatímann í byrjun febrúar að lífeyrissjóðurinn muni ekki fjárfesta í kísilverinu. Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur ekki tekið ákvörðun um fjárfestingu í verkefninu og það sama má segja um Lífeyrissjóð verslunarmanna.
Fréttin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.