Innlent

Vinstri græn samþykkja stjórnarsáttmálann með miklum meirihluta

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Katrín Jakobsdóttir kynnti stjórnarsáttmálann fyrir flokksmönnum.
Katrín Jakobsdóttir kynnti stjórnarsáttmálann fyrir flokksmönnum. Vísir/Stefán
Flokksráð Vinstri grænna samþykkti ríkisstjórnarsáttmála VG, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem borinn var upp á fundi ráðsins í kvöld. Fátt er því nú til fyrirstöðu að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur taki við völdum á morgun.

93 greiddu atkvæði, 75 sögðu já, 15 sögðu nei og 3 seðlar voru auðir.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, og Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður VG, kynntu sáttmálann fyrir viðstöddum á fundi flokksráðsins sem fór fram á Grand Hótel í Reykjavík í kvöld.

Á fundinum kom fram að Katrín Jakobsdóttir yrði forsætisráðherra, auk þess sem að flokkurinn fengi heilbrigðisráðuneytið, umhverfisráðuneytið og forseta Alþingis í sinn hlut. Þá mun ríkisstjórnin stefna á að setja sér siðareglur og að opna alla reikninga ríkisins.

Að því er kom fram í kynningu Katrínar og Svandísar er inntak stjórnarsáttmálans það að efla innviði til þess að auka samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavísu.

Meðal þess sem kemur fram í sáttmálanum er að ríkisstórn flokkanna þriggja stefnir á gera betur en ákvæði Parísarsamningsins í loftslagsmálum segja til um auk þess sem að aðgerðaráætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota verði framfylgt og fjármögnuð að fullu svo dæmi séu tekin.

Líkt og Vísir greindi frá fyrr í kvöld sáu Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmenn flokksins, sér ekki fært að styðja sáttmálann og er staða þeirra innan þingflokksins óviss.

Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hefur þegar samþykkt sáttmálann og ekki er búist við öðru en að miðstjórn Framsóknarflokksins geri slíkt hið sama en sá fundur stendur enn yfir.

Á morgun funda svo þingflokkarnir þrír en stefnt er að því að hin nýja ríkistjórn taki formlega við völdum á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×