Viðgerð er lokið á neyðarloku skólpdælustöðvarinnar við Faxaskjól. Lokan var sett niður síðdegis í gær og virkni hennar virtist þá með ágætum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.
Lokan var síðan prófuð og stillt enn betur á flóði og fjöru og lauk prófunum á henni seint í gærkvöldi.
Þetta þýðir að búið er að stöðva lekann meðfram neyðarlokunni, sem glímt hefur verið við undanfarið og að reksturinn á dælustöðinni er kominn í eðlilegt horf.
Samkvæmt minnisblaði Ingu Dóru Hrólfsdóttur, framkvæmdastjóra Veitna, til stjórnar Orkuveitunnar sem óskaði eftir svörum við spurningum um orsök og afleiðingar bilunarinnar, mátti rekja vandræðaganginn til að legur í opnunarbúnaði voru ekki úr ryðfríu stáli. Því voru hjól,öxlar og legur ónýtar og tærðar í burtu.
Skipt var um opnunarbúnaðinn árið 2014. Skipt var um svipaðan búnað í dælustöð sem er við Hörpu og er full ástæða til að taka hana upp í ljósi atburða síðustu mánaða. Mun því óhreinsað skólp leka út um neyðarúthlaup milli Hörpu og Sólfarsins þegar það verður gert.
Viðgerð lokið á neyðarloku skólpdælustöðvarinnar við Faxaskjól

Tengdar fréttir

Notuðu ekki ryðfrítt stál og því brast neyðarlokan undan skólpinu
Áætla má að tæplega ein milljón rúmmetra af skólpi hafi farið í sjóinn vegna bilunarinnar í Faxaskjóli. Bilunin orsakaðist vegna þess að smiðjan sem gerði við neyðarlokuna árið 2014 notaði ekki ryðfrítt stál.