Skoðun

Óvissan í samskiptum við hið opinbera hefur margfaldast

Brynjólfur Eyjólfsson skrifar
Stundum verður manni brugðið við það sem maður les eða heyrir. Stundum er það sem maður les eða heyrir eiginlega út úr kú. Þegar ég heyrði og las að Óttarr Proppé vildi gera gagn með því sem hann er að gera varð mér um og ó. Hann hefur síðasta mánuðinn samþykkt lífeyrisskerðingar og lög um málefni fatlaðra til að gera gagn væntanlega. En gagnið er þá væntanlega að ekki væri þrengt að þeirri elítu auðugra hægrimanna sem hann er að fara að koma til valda. Fyrir mig og held ég mjög marga aðra eru áhrifin þau að óvissan í samskiptum við hið opinbera hefur margfaldast.

Tökum lífeyrismálin fyrir. Ég er einn af þeim sem sat með það í fanginu í september síðastliðnum að taka afstöðu til þess hvort það samkomulag sem var tilbúið milli ríkisins og stéttarfélaga opinberra starfsmanna um lífeyrismálin yrði staðfest. Ég get fullyrt að enginn sem um þetta mál fjallaði á þessum tíma skildi þetta samkomulag þannig að ekki væru tryggð öll réttindi þeirra sem þá voru í kerfinu. Enginn hefði staðfest þetta samkomulag ef annar skilningur hefði legið fyrir. Nú kann vel að vera að Óttarr Proppé trúi frekar auðjöfrunum vinum sínum en mér. Það er þó eitt sem hann ætti að hafa í huga að það er ekkert eftir af trausti opinberra starfsmanna í samskiptum við ríki og Alþingi.

Þetta er alvarlegt mál og ég held að gagnið sem Óttarr Proppé hefur gert sé ekki til bóta fyrir íslenskan almenning en kannski fyrir aðra. Af hverju tek ég Óttarr Proppé fyrir sérstaklega? Það er vegna þess andlits sem hann setti upp í kosningabaráttunni. Það andlit var ekki svart íhald og frjálshyggja. Ekkert bendir til annars nú en Óttarr Proppé sé sestur í óvinaliðið þegar kemur að réttindum og kjörum opinberra starfsmanna. Hann er því lentur á ysta hægri vængnum.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×