

Að heilsa á íslensku
Á Íslandi er mér iðulega heilsað á ensku og þó tel ég mig vera þokkalega íslenska í útliti. Þetta er auðvitað sérstaklega algengt á Keflavíkurflugvelli (nema í snyrtivörudeildinni; konurnar þar kunna þetta og heilsa alltaf á íslensku) en ég hef líka lent í því í verslunum og á veitingastöðum inni í Reykjavík og víðar. Ég hef jafnvel lent í því að halda uppi heilu samræðunum við íslenskan starfsmann bókabúðar þar sem ég talaði íslensku allan tímann en var alltaf svarað á ensku. Afgreiðslumaðurinn, sem augljóslega var íslenskur, talaði samt íslensku við samstarfskonu sína fyrir framan mig. Mér hefur iðulega verið heilsað á ensku á veitingastöðum — af Íslendingum — og ég hef líka komið inn á veitingastaði hér á Íslandi þar sem enginn talaði íslensku. Og það fleiri en einn slíkan stað. Nú vill svo til að ég er ágæt í ensku; bjó í Kanada í tólf ár og hef kennt ensku bæði við HÍ og núna við HA, svo þetta háir mér ekkert. En þetta er alvond þróun af tveimur ástæðum.
Í fyrsta lagi, með auknum ferðamannastraumi til Íslands má búast við að þarfir ferðamanna verði enn fjölbreyttari en verið hefur. Fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum árum sýna að ferðamaður vill gjarnan kynnast daglegu lífi heimamanna í bland við óvenjulega upplifun. Hann vill öðlast skilning á því á hvaða hátt líf heimamanna er frábrugðið þeirra eigin og uppgötva staði sem eru að mestu ómengaðir af nútímalifnaðarháttum en halda sem mest í hefðbundnar aðferðir og lífshætti. Hér er um að ræða svo kallað sanngildi í ferðamennsku en það er íslenska þýðingin á enska orðinu authenticity og er einn af lykilþáttunum þegar kemur að upplifun ferðamanna. Þótt íslensk náttúra sé enn það sem flestir koma til að upplifa sækjast erlendir ferðamenn í auknu mæli eftir að kynnast heimamönnum, menningu og sögu þjóðarinnar. Og þar með tungumáli.
Ég gerði svolitla tilraunakönnun í fyrra ásamt samstarfsmanni mínum, Finni Friðrikssyni. Aðeins var um að ræða lítið úrtak ferðamanna á Íslandi en í ljós kom að 87% þeirra fannst mjög eða frekar mikilvægt að sér væri a.m.k. heilsað á íslensku og 96% töldu það mjög eða frekar mikilvægt að læra einhver orð í málinu á meðan á dvölinni stæði. Og er þetta ekki líka í samræmi við okkar upplifun þegar við ferðumst til útlanda? Þegar við förum til Spánar segjum við hola, adiós, gracias; á Ítalíu segjum við ciao og grazie og jafnvel prego; og ef við skellum okkur til Frakklands lærum við að segja bonjour, au revoir og merci. Það sama á við um flesta útlendinga sem koma til Íslands. Þeir vilja læra að heilsa, kveðja, þakka fyrir sig og skála. Það er hluti af þeirra upplifun að ganga inn í verslun og heyra góðan dag, ekki good morning.
Hins vegar sögðu aðeins 60,9% í forkönnuninni okkar að sér hefði oftast eða alltaf verið heilsað á íslensku hér á landi og 34,8% höfðu á tilfinningunni að sér væri yfirleitt heilsað á ensku eða a.m.k. jafn oft íslenskunni. Hér er um töluvert misræmi að ræða og augljóst að nokkuð vantar upp á að Íslendingar komi til móts við þarfir hinna erlendu ferðamanna. Líklegt er að þeim sem heilsa öllum á ensku gangi gott eitt til og að með þessu telji þeir sig vera að veita betri þjónustu við erlenda ferðamenn. En samkvæmt þessari forkönnun og fjölmörgum erlendum könnunum er í raun verið að snuða fólkið um hluta af þeirri upplifun sem væntingar stóðu til þegar það keypti sér ferð til Íslands. Og hvers konar gestrisni er það?
Hin hliðin snýr að Íslendingum sjálfum. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að Íslendingar fái þjónustu á íslensku á Íslandi. Enda stendur í fyrstu grein laga nr. 61 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls: „Íslenska er þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi. Allir sem eru búsettir hér á landi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi svo sem nánar er mælt fyrir um í sérlögum.“ Þá segir í annarri grein: „Þjóðtungan er sameiginlegt mál landsmanna. Stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.“
Gallinn er hins vegar sá að þessi lög ná aðeins til opinberra stofnana. Ekkert kveður á um að fyrirtæki í einkaeigu þurfi að nota íslensku eða gefa Íslendingum færi á að nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi. Afleiðingin er sú að þeir Íslendingar sem ekki kunna þokkalega ensku — og þeir eru svo sannarlega enn til — eru allt í einu orðnir annars flokks þegnar sem ekki geta lengur fengið bestu mögulegu þjónustu í eigin landi. Ég veit um nokkur dæmi þar sem fólk hætti við að borða á veitingastað því þar var enginn íslenskumælandi starfsmaður. Það er ekki viðunandi.
Það er nóg að ganga um miðbæ Reykjavíkur til að sjá hvernig enskan er smám saman að verða stærri þáttur í lífi okkar. Fleiri og fleiri staðir heita enskum nöfnum, matseðlar á skiltum fyrir utan staðina eru á ensku, allar upplýsingar eru meira og minna fyrst á ensku, Íslendingar eru jafnvel að halda hátíðir eða viðburði með enskum heitum.
Nú má sjá ótextaðar auglýsingar á ensku í sjónvarpi en það er væntanlega klárt brot á fjölmiðlalögum. Um daginn heyrði ég að öryggiskynningin í flugvél Wow hefði aðeins farið fram á ensku en boðið var upp á frekari útskýringar fyrir þá sem ekki skildu enskuna nógu vel. Vígin falla hvert af öðru. Og nú virðist aftur komin af stað sú vonda þróun að nefna íslensk fyrirtæki erlendum nöfnum og er síðasta dæmið vissulega hið óþjála Air Iceland Connect. Forsvarsmenn fyrirtækisins segjast vera að breyta nafninu til að þjónusta erlenda ferðamenn en átta sig ekki á því að hið íslenska nafn styrkir ímynd viðkomandi félags í augum og eyrum ferðamanna sem ekta og eykur á sanngildi ferðalagsins um leið og það dýpkar upplifun gestanna.
Rétt eins og starfsmaðurinn sem heilsar ferðamanninum á ensku, og rétt eins og ensku skiltin út um allt, er flugfélagið að stela bút af upplifun ferðamanna. Hluti af upplifuninni er nefnilega að berjast við íslensku nöfnin. Þetta vita allir sem nokkurn tímann hafa þurft að svara spurningunni um það hvernig bera eigi fram Eyjafjallajökul.
Höfundur er lektor við Háskólann á Akureyri
Skoðun

Ár vondra vinnubragða í Stúdentaráði HÍ
Katla Ólafsdóttir,Mathias Bragi Ölvisson skrifar

Mannúð og hugrekki - gegn stríðsglæpum og þjóðarmorði
Ólafur Ingólfsson skrifar

Framtíð menntunar – byggjum á trausti, ekki tortryggni
Helga Kristín Kolbeins skrifar

Fé án hirðis
Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar

Gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Myllan sem mala átti gull
Andrés Kristjánsson skrifar

Sjö mýtur um loftslagsbreytingar
Kristinn Már Hilmarsson,Elva Rakel Jónsdóttir skrifar

Pírati pissar í skóinn sinn
Helgi Áss Grétarsson skrifar

Ógnin sem við sjáum ekki – Hið falda tungumál ungu kynslóðarinnar á netinu
Birgitta Þorsteinsdóttir skrifar

Fáum presta aftur inn í skólana
Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Rösk og reiðubúin fyrir landsbyggðina
Hópur Röskvuliða skrifar

Icelandic Learning is a Gendered Health Issue
Logan Lee Sigurðsson skrifar

Goðsögnin um UFS-sjóði sem róttækar „woke"- fjárfestingar
Már Wolfgang Mixa skrifar

Framtíð Öskjuhlíðar
Magnea Gná Jóhannsdóttir skrifar

Vanhæfur Sjálfstæðisflokkur
Dóra Björt Guðjónsdóttir skrifar

Mælt fyrir miklum kjarabótum öryrkja og aldraðra
Inga Sæland skrifar

Mannréttindabrot og stríðsglæpir Rússa í Úkraínu
Erlingur Erlingsson skrifar

Áskorun til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Háskóla Íslands
Ríkharður Ólafsson,Styrmir Hallsson skrifar

Ákvarðanir teknar í Reykjavík – afleiðingarnar skella á okkur
Hópur Framsóknarmanna í sveitarstjórnum skrifar

Snjallborgin eða Skuggaborgin Reykjavík: Gervigreindarknúið höfuðborgarsvæði
Björgmundur Örn Guðmundsson skrifar

Getur Sturlunga snúið aftur?
Leifur B. Dagfinnsson skrifar

Vaka stendur með Menntavísindasviði í verki
Gunnar Ásgrímsson skrifar

Vorbókaleysingar
Henry Alexander Henrysson skrifar

Er þetta í alvöru umdeild skoðun fámenns hóps?
Snorri Másson skrifar

Liðveisla fyrir öll
Atli Már Haraldsson skrifar

Réttur til endurtektarprófa: Jafnræði í námi fyrir alla stúdenta
Vera Mist Magnúsdóttir,Guðlaug Eva Albertsdóttir skrifar

Að standa við stóru orðin
Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Aðför að landsbyggðinni – og tilraun til að slá ryki í augu almennings
Ingibjörg Isaksen skrifar

Deyr mjólkurkýrin ef eigandi hennar fær eitt viðbótar mjólkurglas?
Þórður Snær Júlíusson skrifar

Kynlíf veldur einhverfu: Opið bréf til Háskóla Íslands og fjölmiðla
Guðlaug Svala Kristjánsdóttir,Margrét Oddný Leópoldsdóttir skrifar