Innlent

Þriðjungi fleiri leituðu til neyðarmóttökunnar í sumar

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Nú í sumar hafa ríflega þriðjungi fleiri komið á Neyðarmóttökuna en síðasta sumar. Það stefnir í að metfjöldi leiti til móttökunnar í ár. Eingöngu tuttugu prósent þeirra sem leita sér aðstoðar enda á að leggja fram kæru.

Á tímabilinu 1. maí til 1. september árið 2015 voru 51 mál tilkynnt á neyðarmóttökuna. Á sama tíma ári síðar var tilkynnt um 57 mál. Nú í sumar hefur verið tilkynnt um 74 mál og þar af 28 mál í júlí sem er metfjöldi koma á móttökuna á einum mánuði.

Með þessu áframhaldi stefnir í metár í komum á Neyðarmóttökuna. Hrönn Stefánsdóttir, verkefnastjóri móttökunnar, segir umfjöllun geta útskýrt fjölgunina.

„Ef komum heldur áfram að fjölga svona þá stefnir í annað metár. Ég held að brotaþolar séu að leita til okkar í meiri mæli, ég held þeir viti hvert þeir eigi að mæta, held við höfum kynnt neyðarmóttökuna vel og að hún sé opin allan sólarhringinn alla daga," segir Hrönn.

Á alþjóðavísu er talið að um 25 prósent þeirra sem verða fyrir kynferðisofbeldi leiti sér aðstoðar. Á síðasta ári leituðu 169 til móttökunnar og má leiða líkum að því að það sé eingöngu fjórðungur þolenda.

Það hefur ekki verið fjölgun á kærum, það eru í kringum 20% af þeim málum sem koma til okkar. Af hverju það er, vitum við ekki alveg. En það er samt gott teymi sem starfar að þessum málum og gott samstarf við löggæsluvaldið. En okkar hlutverk er ekki að þrýsta á að brotaþolar kæri - það er þeirra val. En við erum sannarlega brú yfir til löggæsluvaldsins."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×