Innlent

Kalli Bjarni dæmdur í fangelsi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kalli Bjarni segist iðrast brota sinna og ætlar að leita á Vog við vanda sínum.
Kalli Bjarni segist iðrast brota sinna og ætlar að leita á Vog við vanda sínum. Vísir/Vilhelm
Karl Bjarni Guðmundsson, betur þekktur sem Kalli Bjarni sem vann hug og hjörtu þjóðarinnar með sigri sínum í Idolkeppni Stöðvar 2 árið 2004, hefur verið dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir ítrekaðan akstur undir áhrifum fíkniefna. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness í síðustu viku.

Kalli Bjarni hlaut dóm fyrir sex brot, fjögur á árinu 2016 og tvö á þessu ári. Í fimm tilfellum var hann undir áhrifum amfetamíns og í eitt skiptið ók hann yfir hámarkshraða. Kalli Bjarni játaði brot sín og sagðist hafa sótt um á Vogi til að fara í meðferð á fíknivanda sínum. Þá sagðist hann í fullri vinnu og iðrast brota sinna.

Við ákvörðun sína í héraði vísaði dómari til fyrri brota Kalla Bjarna af sama toga. Frá árinu 2007 hefur honum fimm sinnum verið gerð refsing, þyngst tveggja ára fangelsi fyrir fíkniefnasmygl árið 2007 en hann var þá tekinn með tvö kíló af kókaíni. Hann sagðist hafa verið burðardýr en óttaðist að gefa upp nöfn skipuleggjenda í málinu.

Dóminn má lesa hér. 


Tengdar fréttir

Kalli Bjarni í Héraðsdómi: Ég var burðardýr

Idolstjarnan Karl Bjarni Guðmundsson mætti fyrir dómara í morgun og hlýddi á ákærur ríkissaksóknara á hendur honum sem þingfestar voru í Héraðsdómi Reykjaness.

Kalli Bjarni fær að afplána á Kvíabryggju

Idolstjarnan Karl Bjarni Guðmundsson fær að afplána tveggja ára fangelsisdóm sinn á Kvíabryggju. Þangað er hann nú kominn eftir að hafa eytt tæpum mánuði í afplánun í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Kalli Bjarni fékk fangelsisdóm fyrir að hafa flutt inn tæp tvö kíló af kókaíni á síðasta ári.

Kalli Bjarni aftur dæmdur

Karl Bjarni Guðmundsson, betur þekktur sem Kalli Bjarni úr Idolinu, var í dag dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir vörslu fíkniefna. Sá dómur leggst ofan á tveggja ára fangelsisdóm sem hann hlaut fyrr á þessu ári fyrir að hafa reynt að smygla tveimur kílóum af kókaíni til landsins.

Fékk leyfi til að kveðja systkini sín

„Hann fékk leyfi til að fara til Noregs og kveðja systkini sín," segir Sveinbjörg Karlsdóttir móðir Kalla Bjarna sem fór úr landi áður en hann átti að hefja afplánun á tveggja ára fangelsisdómi vegna kókaínsmygls.

Kalli Bjarni fluttur heim til mömmu

„Hann er kominn heim á hótel mömmu og verður hjá mér þangað til hann fer inn," segir Sveinbjörg Karlsdóttir, móðir Kalla Bjarna, sem handtekinn var á föstudaginn á Hótel Vík ásamt vinkonu sinni með 65 grömm af amfetamíni.

Kalli Bjarni óttast skipuleggjendur dópsmygls

Aðalmeðferð í dópmáli Idolstjörnunnar Karls Bjarna Guðmundssonar fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Við þingfestingu málsins fyrr í vikunni játaði Kalli Bjarni að hafa reynt að smygla tæpum tveimur kílóum af kókaíni til landsins í byrjun júní. Hann sagðist þá hins vegar aðeins hafa verið burðardýr.

Kalli Bjarni aftur ákærður fyrir fíkniefnabrot

Klukkan 10:05 var í Héraðsdómi Reykjavíkur þingfest ákæra á hendur Karli Bjarna Guðmundssyni Idolstjörnu. Ákæran varðar rúm 64 grömm af amfetamíni sem Karl Bjarni var tekinn með þegar hann dvaldi á Hótel Vík í Síðumúla þann 28. mars síðastliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×