Fimm flokkar á þingi, Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Vinstri græn, Viðreisn og Björt framtíð standa að samkomulagi sem gert var á þingi í gær um framhald þingstarfa og þinglok.
Samfylkingin og Píratar styðja samkomulagið en óskuðu eftir því að vera ekki hluti af því. Ástæðan fyrir hjásetu þeirra er að ekki var fallist á tillögu um að á komandi kjörtímabili yrði unnt að breyta stjórnarskránni með öðrum hætti en kveðið er á um nú.
Rætt var við fulltrúa Samfylkingarinnar og Pírata um niðurstöðuna í kvöldfréttum í gær sem og forseta Alþingis.
Þá mun velferðarnefnd ræða tvö frumvörp er varða lögfestingu NPA – notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlaða og fjalla um yfirlýsingu sem formenn flokkanna hyggjast undirrita varðandi það hvaða vinna þurfi að eiga sér stað þannig að það mál fáist afgreitt fyrir áramót ef nýtt Alþingi kýs að gera það.