Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði við Repúblikana á þingi að þeir myndu hafa verra af, tækist þeim ekki á kjörtímabilinu að koma sér saman um nýtt heilbrigðisfrumvarp sem kæmi í staðinn fyrir heilbrigðislög Baracks Obama.
„Ég held í allri einlægni að margir ykkar muni missa þingsætin árið 2018 ef ykkur tekst ekki að ljúka þessu,“ sagði hann á lokuðum fundi í gær, að sögn bandarískra fjölmiðla.
Mikill ágreiningur er meðal Repúblikana á þingi um það hvers konar löggjöf eigi að taka við af Obamacare-lögunum svonefndu.
Það var eitt helsta kosningamál Trumps að gera Obamacare-lögin að engu, en sumir flokksfélagar hans vilja ganga mjög langt í þeim efnum en aðrir mun styttra.
Allt stefnir því í að erfitt verði fyrir Repúblikana að koma sér saman um hvað taka eigi við.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.
Trump segir þingsæti Repúblikana í húfi
Guðsteinn Bjarnason skrifar
