Fótbolti

Ragnar lánaður til Rubin Kazan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ragnar spilaði lítið með Fulham á síðasta tímabili.
Ragnar spilaði lítið með Fulham á síðasta tímabili. vísir/getty
Landsliðsmiðvörðurinn Ragnar Sigurðsson er genginn til liðs við Rubin Kazan á eins árs lánssamningi frá Fulham. 433.is greindi fyrst frá.

Ragnar snýr því aftur í rússnesku úrvalsdeildina en hann lék með Krasnodar á árunum 2014-16.

Fulham keypti Ragnar frá Krasnodar fyrir síðasta tímabil. Hann fékk hins vegar fá tækifæri hjá enska B-deildarliðinu í vetur.

Rubin Kazan situr í 9. sæti rússnesku deildarinnar með þrjú stig eftir þrjá leiki. Næsti leikur liðsins er gegn CSKA Moskvu á sunnudaginn.

Rubin Kazan er sjötta félagið sem hinn 31 árs gamli Ragnar spilar með. Auk Krasnodar og Fulham hefur hann leikið með Fylki, IFK Göteborg og FC Köbenhavn.

Rubin Kazan hefur tvisvar sinnum orðið rússneskur meistari (2008 og 2009) og vann rússnesku bikarkeppnina 2012. Túrkmeninn Kurban Berdyev stýrði Rubin Kazan til þessara þriggja stóru titla. Hann tók svo aftur við liðinu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×