Margrét Sigríður Árnadóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer á Egilsstöðum í sumar. Margrét er 27 ára, fædd og uppalinn á Reyðarfirði en er nú búsett á Egilsstöðum.
Í tilkynningu frá UMFÍ kemur fram að Margrét starfi sem verkefnastjóri hjá viðburða- og þjónustufyrirtækinu Austurför á Egilsstöðum. Margrét er jafnframt formaður félagasamtakanna Ungt Austurland og skipulagði í vor byggðaráðstefnu um framtíð Austurlands á Borgarfirði eystri. „Þar var leitast við að fá ungt fólk til að hafa áhrif á stefnumótun fyrir svæðið, byggðamál og ræða saman á jafningjagrundvelli um þróun fjórðungsins.
Margrét hefur komið að skipulagningu margra viðburða á Egilsstöðum, þar á meðal hjólreiðakeppninnar Tour De Ormurinn ásamt Ungmenna- og íþróttasambandi Austurlands (UÍA) undanfarin ár. Það er einmitt UÍA sem er er mótahaldari Unglingalandsmóts UMFÍ á Egilsstöðum um næstu verslunarmannahelgi.
Margrét hefur mikinn áhuga á hreyfingu og heilbrigðum lífsstíl og sér fram á skemmtilegt mót um næstu verslunarmannahelgi. Nóg verður að gera hjá Margréti um verslunarmannahelgina enda búist við nokkuð þúsund börnum á aldrinum 11-18 ára á mótið á Egilsstöðum ásamt foreldrum og öðrum,“ segir í tilkynningunni.
