Viðskipti innlent

Húsnæðismarkaðurinn talinn vera að kólna

Sæunn Gísladóttir skrifar
Það vekur athygli að fasteignaverð á fjölbýli hækkaði aðeins um 0,32 prósent milli mánaða en ekki hefur sést eins lítil hækkun frá því í mars 2016
Það vekur athygli að fasteignaverð á fjölbýli hækkaði aðeins um 0,32 prósent milli mánaða en ekki hefur sést eins lítil hækkun frá því í mars 2016 Vísir/Anton Brink
Húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs hækkaði aðeins um 0,43 prósent milli mánaða og hækkaði reiknuð húsaleiga um 0,55 prósent milli mánaða samkvæmt tölum Hagstofunnar. Árstakturinn lækkar þannig úr 24,2 prósentum í 22,9 prósent.

Greiningardeild Arion banka bendir á að í þetta sinn voru það verðhækkanir á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem knúðu verðbólguna áfram og nam sú hækkun 1,5 prósentum milli mánaða. Það veki athygli að fasteignaverð á fjölbýli hækkaði aðeins um 0,32 prósent milli mánaða en ekki hefur sést eins lítil hækkun frá því í mars 2016 þegar hún mældist 0,29 prósent milli mánaða.

Það sé samt sem áður óvíst hvað gerist á næstu mánuðum, en greiningardeildin telur þetta vera skýrar vísbendingar um að markaðurinn sé farinn að kólna og að betra jafnvægi sé í kortunum.

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,25 prósent milli mánaða í ágúst og lækkar ársverðbólgan þannig úr 1,8 prósentum í 1,7 prósent. Verðbólgutölur eru undir spám greiningaraðila en þær lágu á bilinu 0,4 prósent til 0,6 prósent. Þá er það sérstaklega hækkun húnæðisverðs, verð á mat- og drykkjarvörum og lok útsala sem knúði verðbólguna áfram í ágúst en á móti vega árstíðasveiflur í flugfargjöldum og lækkun verðlags á tómstundum og menningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×