Lífið

Útkoman varð minningar og meiningar í söngvum

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
"Þetta er bara gítar og söngur. Eins einfalt og hugsast getur,“ segir Magnús um flutninginn á diskinum Máðar myndir.
"Þetta er bara gítar og söngur. Eins einfalt og hugsast getur,“ segir Magnús um flutninginn á diskinum Máðar myndir. Mynd/Friðrika Ben
Diskurinn inniheldur átta lög og texta,“ segir Magnús R. Einarsson, sem lengi var dagskrárgerðarmaður á Rás 2, um sinn fyrsta hljómdisk sem nefnist Máðar myndir.  Sjö laganna kveðst hann hafa samið á hálfum mánuði fyrir tveimur árum. „Ég átti frí í janúar þegar enginn annar var í fríi og fór bara heim, kveikti á tölvunni og slökkti á símanum og samdi sjö lög og texta á tveimur vikum. Vann frá sex á morgnana til tíu á kvöldin, nánast sleitulaust, og útkoman varð minningar og meiningar í söngvum. Svo fann ég eitt lag í skúffunni sem passaði við.“

Ekki segir Magnús flókið fyrirbæri að gefa út plötu, þó hafi það vafist fyrir honum um hríð. „Það er nefnilega þannig að tónlistarmennirnir skipta minna og minna máli en þeir sem fikta í græjunum og tölvunum meira og meira máli. Ég vildi bara vera einn með gítarinn, taka upp og engu breyta og því hélt ég til streitu. Að syngja vel er hæfileiki sem fáum er gefinn. Við hin gerum okkar besta. Svo kann ég nokkur grip en tilgangurinn með útgáfu disksins er að koma frá mér lögum og textum. Þetta er alger heimilisiðnaður nema hvað ég fór í bílskúrinn til hans Jóns Ólafssonar þrjá eða fjóra morgna.“

Magnús hefur verið músíkant frá því hann var strákur og spilað með fjölda hljómsveita og söngvara en diskurinn Máðar myndir er það fyrsta sem kemur út undir hans eigin nafni. „Þetta er eitthvað sem mig hefur lengi langað að gera en ekki látið verða af fyrr en núna. Ég er orðinn ellilífeyrisþegi og hafði nógan tíma til að brasa í þessu.  Þegar maður hættir að vinna tekur við önnum kafið iðjuleysi. Ég er að læra frönsku og ég er að læra að teikna, ég er að semja og taka upp og svo hjóla ég um alla borgina,“ segir hann og á þar við París þar sem hann býr nú og unir hag sínum vel.

„Við Rikka ætlum að vera hér í París í að minnsta kosti ár. Það er gaman að geta leyft sér að skipta um stíl,“ segir hann ánægjulegur. Skyldi hann ekki ætla að koma heim og halda útgáfutónleika? „Jú, líklega kem ég en þó ekki fyrr en um mánaðamótin október, nóvember.“ 

En hvar er hægt að nálgast diskinn? „Hann er bara seldur í póstsölu enda gefinn út í litlu upplagi. Ef menn hafa áhuga geta þeir haft samband við mig gegnum fésbókina. Þar eru flestir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.