Björn hefur unnið myndir af reikistjörnum í sólkerfinu frá geimförum um árabil eins og fram kom í frétt Vísis í síðustu viku. Nýjustu myndirnar sem hann hefur unnið eru frá Juno-geimfari NASA á braut um gasrisann Júpíter.
NASA deildi í gær mynd af Stóra rauða blettinum, risavöxnum stormi sem hefur geisað á Júpíter í margar aldir, sem Björn setti saman og vann til að litirnir líktust sem mest þeim sem menn gætu séð með eigin augum.
Myndinni var jafnframt deilt á samfélagsmiðlareikningum NASA. Á Twitter var myndinni deilt á opinberum reikningi Juno-leiðangursins og Facebook- og Twitter-síðum Jet Propulsion Lab sem stjórnar leiðangrinum. Þá endurtísti aðalreikningur NASA á Twitter tísti Juno-leiðangursins.
Þúsundir manna hafa síðan deilt og líkað við mynd Björns.
I see your true colors. See what the #GreatRedSpot would look like to human eyes in this natural color rendition https://t.co/t2bCqQDif6 pic.twitter.com/1yTrT9QAIT
— NASA's Juno Mission (@NASAJuno) July 27, 2017