Innlent

Skora á Sigríði að stöðva flutning hælisleitenda til Grikklands og Ítalíu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sigríði var send áskorunin í dag.
Sigríði var send áskorunin í dag. vísir/ernir
Átta þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa skorað á Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra að stöðva tafarlaust allar endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu og Grikklands. Vilja þeir einnig að allar endursendingar sem þegar hafa átt sér stað verði endurskoðaðar.

„Vakin er athygli á því að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur ítrekað úrskurðað að endursendingar flóttamanna til landa þar sem hætta er á að þeir verði sendir áfram til landsvæðis þar sem grundvallarréttindum þeirra er hætta búin stangist á við Mannréttindasáttmála Evrópu sem og alþjóðlegan flóttamannarétt,“ segir í áskoruninni.

Þá beri þess að geta að Mannréttindadómstóllinn hafi ekki snúið við ákvörðunum sínum um að endursendingar aðildarríkja til Grikklands stangist á við mannréttindasáttmálann, vegna óviðunandi aðbúnaðar flóttamanna þar í landi. Sömuleiðis hafi dómstóllinn gert alvarlegar athugasemdir við endursendingar viðkvæmra og varnarlausra einstaklinga til Ítalíu vegna bágra aðstæðna þar.

„Dómsmálaráðuneytið hætti af þessum sökum endursendingum til þessara ríkja í desember 2015. Undirrituð telja þá ákvörðun enn eiga rétt á sér. Enn býr flóttafólk við óviðunandi aðstæður í þessum ríkjum.“

Þingmennirnir sem skrifa undir áskorunina eru Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Andrés Ingi Jónsson, Gunnar Hrafn Jónsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Logi Einrasosn, Guðjón S. Brjánsson, Ásta Guðrún Helgadóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×