Karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um að hafa banað þrem einstaklingum í bænum Skurup í Svíþjóð í gær. Aftonbladet greinir frá þessu.
Þrír einstaklingar fundust látnir í heimahúsi í bænum Skurup á Skáni í gær. Nokkrum klukkustundum síðar greindi lögregla á Skáni frá því að ekkert benti til þess að andlát þeirra hefði borið að með saknæmum hætti.
Í morgun tilkynnti svo lögregla að maður hefði verið handtekinn í tengslum við andlát þremenninganna og að málið sé nú rannsakað sem sakamál. Lögregla vildi ekki veita frekari upplýsingar um gang málsins en rannsókn stendur nú yfir.
