Erlent

Tuttugu látnir eftir bílasprengju í Damaskus

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni.
Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni. Vísir/EPA
Minnst tuttugu eru látnir og tugir slasaðir eftir að bílasprengja sprakk í Damaskus, höfuðborg Sýrlands í dag.

Samkvæmt yfirvöldum í Sýrlandi var um að ræða eina af þremur bílasprengjum sem hafi átt að sprengja á svæðum borgarinnar þar sem mikið erum mannaferðir en takist hafi að aftengja hinar tvær sprengjurnar eftir þá fyrstu. Í dag var fyrsti vinnudagurinn í Sýrlandi eftir Eid al-Fitr hátíðina.

Í bréfi til aðalritara Sameinuðu þjóðanna sem utanríkisráðuneyti Sýrlands sendi fyrr í dag segir að 20 hafi látist í árásinni og tugir kvenna og barna slasast. Yfirvöld segja að komið hafi verið í veg fyrir að maðurinn kæmist á áætlaðan áfangastað. Ef það hefði ekki verið gert hefði mannfallið verið meira.

Enginn hefur enn lýst yfir ábyrgð á árásinni. Damaskus hefur verið tiltölulega örugg borg þrátt fyrir að borgarastyrjöld hafi geisað í landinu síðastliðin sex ár. Þó voru gerðar tvær keimlíkar árásir í mars síðastliðnum. ISIS lýsti yfir ábyrgð á annari þeirra og hryðjuverkasamtökin Tahrir al-Sham lýstu yfir ábyrgð á hinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×