Innlent

Sviðsmynd úr 300 metrum af plasti: „Þó hún virðist vera ótrúlega óumhverfisvæn þá er hún kannski umhverfisvænni en flestar“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Óþelló gerist í einskonar plastheimi. Loft Þjóðleikhússins er þakið plasti, sviðið sjálft er þakið plasti og leikmyndin, sem myndar herbergisrými sýningarinnar, samanstendur af færanlegum plast ferningum.
Óþelló gerist í einskonar plastheimi. Loft Þjóðleikhússins er þakið plasti, sviðið sjálft er þakið plasti og leikmyndin, sem myndar herbergisrými sýningarinnar, samanstendur af færanlegum plast ferningum. Vísir/Eyþór
Óþelló eftir Shakespeare var jólasýning Þjóðleikhússins . Sviðsmynd leikritsins hefur vakið athygli og fór Jón Viðar, gagnrýnandi, mikinn í lýsingum sínum á verkinu í gagnrýni sinni í Fréttatímanum 29. desember síðastliðinn. Þar kom meðal annars fram gagnrýni á óumhverfisvæna sviðsmynd þess.

Óþelló gerist í einskonar plastheimi. Loft Þjóðleikhússins er þakið plasti, sviðið sjálft er þakið plasti og leikmyndin, sem myndar herbergisrými sýningarinnar, samanstendur af færanlegum plast ferningum.

Fagurfræðileg ákvörðun

Vísir hafði samband við sviðmyndahönnuð leikritsins, Börk Jónsson. Ástæðuna fyrir þessu sérstaka efnisvali segir hann vera fagurfræðilega.

„Það hefur léttleika þegar það lýsist upp og það er hægt að búa til þessi form. Það krumpast og tekur í sig ljós í brotin og krumpurnar. Þetta er svona skúlptúrískt efni svolítið. Þetta er bara skúlptúrísk ákvörðun.“ segir Börkur og segir efniviðinn hafa verið spennandi og passa vel inn í hugmyndafræðina að baki verkinu.

„Okkur langaði að búa til einhvern svona tilbúinn, svolítið óhuggulegan manngerðan heim sem þau búa sér til.“

Efnið fundu þau í Hamborg eftir töluverða leit og fluttu það inn. Plastið er eldtefjandi og pöntuðu þau 300m af plastefni fyrir leiksýninguna samkvæmt Hákoni Erni Hákonarsyni tæknistjóra sýningarinnar.

Umhverfisvænni en flestar sviðsmyndir

Aðspurður um náttúruverndargildið svarar Börkur að þau hafi mikið velt þessum þætti fyrir sér þegar hugmyndir um plast skutu upp kollinum.

„Plast er ekkert umhverfisvænt. Það er augljóst en að sama skapi er það notað í byggingariðnaðinum og í leikmyndasmíð og í öllum framkvæmdum. Þar er plast notað alveg í fermetravís endalaust,‘‘ segir Börkur en leggur áherslu á að þau séu í raun með mjög endurnýjanlegan efnivið í höndunum að því leyti að plastið sem hangir í loftinu og á og yfir sviðinu sé notað aftur í hverri sýningu. Hins vegar sé plastið í rýmisferningunum ekki allt endurnýtanlegt þar sem plastið þar sé rifið að hluta nokkrum sinnum í hverri sýningu. Það sé liður í leikrænni túlkun verksins.

„Það er hægt að endurnýta stóran hluta af þessu sem við erum að nota. Húsið getur notað þetta í öllum sínum plastþörfum á næsta ári og kannski lengur,“ segir Börkur. Listgildi sviðsmyndarinnar verður þannig ofar náttúruverndargildinu að vissu leyti.

Plast ógeðslegt efni

„Við ákváðum bara að kýla á þetta í rauninni. Þetta er ekki alveg kjörið hvað varðar umhverfisþáttinn en þó af því kannski 60-80 prósent endurnýtist af þeim fermetrum sem við erum með. Það er miklu meira en hægt er að segja um leikmyndir í leikhúsum almennt. Því þær eru byggðar og svo er þeim hent í ruslið. Það er 100% ekki ,,recycled‘‘. Þannig að það að það sé hægt að endurnýta kannski 50 prósent af þessu segjum það, ,,worst case scenario‘‘ og stefnan er náttúrulega á miklu meira, það er ótrúlega gott og óvenjulegt,“ segir Börkur og bendir á að sjálfsögðu sé hluti úr sviðsmyndum oft endurnýttir og nefnir þar viðarbita og fleira. Hins vegar séu sviðsmyndir almennt mjög sértækar og ekki hægt að endurnýta þær aftur í aðrar leiksýningar.

Börkur segir að hann hafi fengið viðbrögð frá samstarfsmönnum við efnisvalinu við æfingar og að þau hafi furðað sig á því að nota þennan óumhverfisvæna efnivið.

„Þó hún virðist vera ótrúlega óumhverfisvæn þá er hún kannski umhverfisvænni en flestar. En plast er náttúrulega ógeðslegt efni. Það þarf ekkert að diskútera það neitt. Við erum í rauninni miklir umhverfissinnar,“ nefnir Börkur og segir það vera áhugavert að prófa einn daginn að nýta staðbundin hráefni eins og birki, lerki og stráum af suðurlandi sem andsvar við kolefnisfótspor sitt eftir þessa sýningu. 

Vakandi fyrir umhverfisþættinum

Vísir heyrði í Rakel Garðarsdóttir, einum af stofnendum Vakandi og framleiðandi hjá Vesturporti. Rakel hefur undanfarin ár staðið fyrir vitundarvakningu um matarsóun og náttúruvernd. Hún tekur í sama streng og Börkur og leggur áherslu á endurnýtanleika efnisins. Þar spili líka inn í léttleiki þess þar sem Vesturport muni ferðast með sýninguna heimshorna á milli og þá skipti máli að vera með þægilega sviðsmynd.

„Það er náttúrulega miklu umhverfisvænna því léttari sem hún er, því plássminni sem hún er. Líka það að hægt sé að endurvinna hana út af því að það er fullt af leikmyndum sem ekki er hægt að endurvinna. Það er margt sem er hirt úr þeim en mörgu líka hent. Þannig að þetta er þessi heildar hugsun.“

Rakel nefnir einnig að notuð séu tré í sýningunni og leggur hún áherslu á að það séu allt tré sem búið sé að grisja.

„Það má segja að þau séu að fá auka listrænt líf,“ segir Rakel.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×