Erlent

Gríðarleg eyðilegging í norðurhluta Kaliforníu

Þórdís Valsdóttir skrifar
Eyðileggingin hefur verið gífurleg í borginni Santa Rosa. Rúmlega 175 þúsund manns búa í borginni sem er staðsett um 80 kílómetra frá San Fransisco
Eyðileggingin hefur verið gífurleg í borginni Santa Rosa. Rúmlega 175 þúsund manns búa í borginni sem er staðsett um 80 kílómetra frá San Fransisco Google Maps/CHP Golden Gate Division
Í þrjá daga hafa gríðarlegir skógar- og kjarreldar geysað í norðurhluta Kaliforníuríkis og hafa alls 433 ferkílómetrar lands brunnið. Eldarnir hafa valdið gríðarlegri eyðileggingu í helstu vínhéruðum ríkisins.

Eldarnir eru 17 talsins og þeir stærstu eru í Sonoma, Napa og Mendocino sýslum. Eldarnir hafa eyðilagt um tvö þúsund byggingar og hafa yfir hundrað manns leitað á sjúkrahús á svæðunum þar sem eldarnir geysa.

Yfirvöld í Kaliforníuríki hafa staðfest að fimmtán manns hafa látið lífið í eldunum, þar af níu í Sonoma-sýslu og um 20.000 hafa flúið heimili sín. Þá er um 180 manns saknað í Sonoma-sýslu.

Ken Pimlott, slökkviliðsstjóri í Kaliforníu, sagði í viðtali við fréttastofu CNN að verið væri að rannsaka upptök eldanna. „Það er of snemmt að segja til um það hvort einhverjir eldanna séu af mannavöldum,“ sagði Pimlott og bætti við að líkurnar á því væru fremur litlar.

Yfirvöld búast við því að tala látinna muni hækka á næstu dögum og sterkir vindar á svæðunum gætu gert slökkviliði erfitt fyrir að hafa stjórn á eldunum.

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, sendi Donald Trump forseta bréf í gær þar sem hann óskaði eftir aðstoð alríkisstjórnarinnar vegna umfangs skógareldanna. Í kjölfar þess heimsótti Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, neyðarhjálparmiðstöð Kaliforníuríkis og tilkynnti að Trump hefði samþykkt beiðni Brown.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×